Tíu þúsund fet bjóða nú upp á glæsilega hringferð um Suður-Ítalíu, þar sem ferðalangar fá vandaða leiðsögn um sögu, menningu og náttúru landsins frá tveimur þaulreyndum íslenskum fararstjórum ásamt einstakri fræðslu frá rithöfundinum Illuga Jökulssyni. Þrjár sögufrægustu borgir heims; Róm, Napólí og Pompeii, tvær dásamlegar eyjar; Ischia og Capri, Páfagarður ásamt heillandi miðaldarbæjum á Amalfí-skaganum. Þetta er einfaldlega dásamleg ferð sem þú skalt ekki missa af!
Tíu þúsund fet kynna meiriháttar hringferð til Suður-Ítalíu, þar sem hver sögu- og náttúruperlan rekur hver aðra. Dvalið er á huggulegum hótelum, þar sem vel fer um farþega.
Þaulreyndir íslenskumælandi fararstjórar halda utan um hópinn og fræða um land, menningu, siði og þjóð. Vönduð dagskrá í boði og mikið innifalið.
Hér er frábært tækifæri til að upplifa stórbrotna menningu og njóta óþrjótandi afþreyingarmöguleika í sögufrægustu borgum heims.
Hér er á ferðinni fróðleg og skemmtileg menningarferð, þar sem einstök náttúra, saga, mannlíf og dásamlegur matur og góðar veigar skipa stórt hlutverk.
Ítalía
Ítalía liggur við Miðjarðarhafið á Appenína-skaganum í Suður-Evrópu og hefur lögun landsins verið líkt við háhæla stígvél. Landið er 301.340 ferkílómetrar að stærð og á landamæri að Frakklandi, Sviss, Austurríki og Slóveníu. Þá umlykur Ítalía tvö sjálfstæð ríki, San Marínó og Vatíkanið.
Fjöldi íbúa er tæplega 59 milljónir og er landið það þriðja fjölmennasta innan aðildarríkja Evrópusambandsins. Flestir íbúanna búa í höfuðborginni Róm eða tæplega 3 milljónir. Á Ítalíu er opinbera tungumálið ítalska en mállýskurnar eru margar og ólíkar eins og á Sikiley, í Napolí og í Feneyjum. Margir leita til Ítalíu til að læra þetta skemmtilega tungumál.
Veðrið er fjölbreytt og skiptist eftir landshlutum, en Miðjarðarhafsloftslag er þó ríkjandi með heitum og þurrum sumrum og mildum vetrum. Í norðrinu, sérstaklega í Alpafjöllunum einkennist veðrið hins vegar af köldum vetrum og snjókomu og heitum sumrum.
Ítalíu á sér gríðarlega langa og ríka sögu, sem nær mörg þúsund ár aftur í tímann, þar sem ýmsar fornþjóðir lögðu grunn að ýmsum menningarlegum þáttum landsins en samspil þeirra við sögulega atburði hafa mótað þjóðarvitund þeirra í gegnum tíðina.
Ítalir búa yfir ríkri menningarhefð og listum, þar sem þeir hafa lagt mikið að mörkum til bókmennta, tónlistar og vísinda svo fátt eitt sé nefnt en Dante, Verdi, Vivaldi og Galileo Galilei voru allir frá Ítalíu. Þá er landið þekkt fyrir einstakan arkitektúr, myndlist og skúlptúra, eins og St. Péturskirkjuna í Vatíkaninu, Colosseum í Róm og listamennirnir Leonardo da Vinci, Michelangelo og Raphael Sanzio, Ítalía er með flest svæði í heimi á heimsminjaskrá UNESCO, þar á meðal borgir eins og Feneyjar, Flórens og fornborgina Pompei. Þá er Ítalía heimsþekkt fyrir matargerðina sína, þar sem þeir bjóða upp á heimsins bestu pastarétti, pizzur og auðvitað langbesta ísinn. Þá er að finna héruð á Ítalíu sem rækta heimsklassa ólífur og vinna þeir ýmsar olíur úr þeim. Ítalir eru einnig þekktir fyrir vínræktina, sem þeir hafa stundað í hundruð ára og toppurinn verður að teljast eftirréttarvínið þeirra, limoncello.
Landslagið á Ítalíu er afar fjölbreytt, allt frá snævi þöktum tindum Alpafjalla í norðri yfir í sólríkar strendur við Miðjarðarhafið, þar sem Amalfi-ströndin verður að teljast sú vinsælasta. Þá má finna þar gróðursælar hæðir og fjöll og grösug flatlendi, þar sem ýmis ræktun á sér stað.
NOKKRAR STAÐREYNDIR UM ÍTALÍU
Það er í raun ekki hægt að fanga allt sem Ítalía hefur upp á að bjóða í stuttu máli, landið er einfaldlega frábært heim að sækja og um það þarf ekki að hafa fleiri orð!
Róm
Róm sem er höfuðborg Ítalíu er staðsett á Mið-Ítalíu á vesturströndinni á bökkum Tíber-fljótsins og umlykur borgin borgríkið Vatíkanið, þar sem höfuðstöðvar kaþólsku kirkjunnar er með aðsetur páfans. Borgin er stundum kölluð ,,borgin eilífa” en til forna var hún höfuðborg heimsveldisins.
Í Róm er að finna marga áhugaverða staði ásamt skemmtilegum afþreyingarmöguleikum og dásamlegum mat.
Róm er einna þekktust fyrir hinar frægu byggingar, Colosseum, sem er stærsta hringleikahús veraldar þar sem m.a. glæsilegar bardagasýningar fóru fram og svo hin ægifagra Péturskirkja sem er stærsta kirkja Evrópu. Pantheon í Róm er síðan meðal best varðveittu bygginga heims, en arkitektúrinn þykir einstakur, sérstaklega fyrir sakir hvolfþaksins sem er það stærsta sinnar tegundar úr óstyrkri steypu.
Þá eru málverk Michaelangelo, Botticello og félaga á veggjum Sixtínsku kapellunnar í Vatíkaninu engu lík en þau teljast til frægustu listaverka sögunnar. Í Róm er síðan að finna hið forna Rómatorg eða Roman Forum, þaðan sem borgin byrjaði að vaxa en þar var miðpunktur viðskipta, menningar og stjórnsýslu Rómaveldis. Navónutorg telst síðan vera eitt fegursta torg Rómar, en áður fyrr var þar leikvangur Circus Agonalis. Þá má ekki nefna Róm án þess að minnast á Spænsku tröppurnar og Trevi-brunninn, þar sem þúsundir evra enda daglega ofan í brunninum.
Hægt er að finna söfn af ýmsu tagi í borginni, m.a. þjóðminjasafnið, sem inniheldur mikið af fornleifum og listaverkum frá Rómaveldi. Galleria Borghese listasafnið er líka skemmtilegt heim að sækja, með málverkum eftir snillinga eins og Michelangelo og Raphael. Þá er þar einnig að finna listasafn tileinkað samtímalist.
Matar- og vínmenning þeirra heimamanna einkennist af heimagerðu pasta, þar sem þekktustu pastaréttir Rómar eru Cacio e Pepe og Carbonara. Þá eru Rómarbúar snillingar í pizzugerð og er pizza al Taglio ein af þeim vinsælustu en hún minnir á heimagerðar kassalaga pizzur með þykkum botni, bragðgóðri sósu, áleggi og ljúffengum þykkum mozzarella osti. Ítalir elska líka ís en ítalska ísinn er mjög víða hægt að finna í borginni. Róm er síðan umkringd frægum vínræktarsvæðum eins og Frascati og Castelli Romani og er auðvelt að fara í vínsmökkun á velvöldum vínbúgörðum.
Róm er einfaldlega borg borganna!
Napólí
Napólí, sem er þriðja stærsta borg Ítalíu, er í Campania-héraði á Suður-Ítalíu með tæplega eina milljón íbúa. Borgin á sér langa sögu eða aftur um 2.500 ár en í samhengi við margt á Ítalíu, þá er hún ekki gömul og því var hún kölluð Nýja borgin. Borgin er full af sögu, menningu og ómótstæðilegum mat.
Hin 2.500 ára gamla saga Napólí býr yfir mörgum sögufrægum byggingum og minnisvörðum og stundum hefur borgin einfaldlega verið skilgreind sem ítalska borgin sem er með of mikla sögu til að ná yfir hana alla. Það ber því ekki að undra að miðborgin hafi verið sett á heimsminjaskrá UNESCO. Byggingastíllinn einkennist af miðaldar-, endurreisnar- og barokkstíl. Í borginni er að finna 448 sögufrægar kirkjur en á heildina eru kirkjurnar 1.000, sem gerir borgina að kaþólskustu borg heims, þegar tekið er tillit til fjölda starfsmanna sem tengjast kirkjunum. Ein þessara kirkja er Duomo di Napoli eða dómkirkjan, sem er þekkt fyrir hversu fagurlega hún er skreytt og eins fyrir arkitektúrinn.
Iðandi mannlífið, sem einkennist m.a. af lifandi tónlist, myndlistar- og götulistamönnum, á strætum þessarar sögufrægu borgar skapar skemmtilega stemningu en þar er að finna fjölda góðra kaffitería, veitingastaða og fallegra verslana og því auðvelt að gleyma sér og njóta þess sem borgin býður upp á. San Gregorio Armeno er ein af skemmtilegri götum borgarinnar, þar sem gatan er fræg fyrir handverksfólk, sem selur fallega muni sína til ferðamanna. Fyrir þá sem hafa áhuga á listum og menningu, þá er að finna í borginni listasafnið Museo di Capodimonte, sem er ríkulega skreytt verkum meistara á við Caravaggio og Titian. Í Napólí er síðan að finna eitt elsta og frægasta óperuhús í heimi, þar sem reglulega eru sýndar bæði óperur og ballett.
Rétt utan við Napólí er síðan að finna hið virka eldfjall Vesúvíus en fyrir þá kjörkuðu er hægt að fara í göngu upp á topp og njóta fagurs útsýnis yfir Napólí og Napólí-flóa. Neðan við fjallið standa rústir Pompeii-borgar, sem grófst undir ösku í eldgosinu árið 79 e.Kr. Borgin sú þykir ein merkilegasta í sögu fornleifarannsókna.
Matarmenningin í Napólí er einföld, íbúarnir elska pizzur enda var pizzan fundin upp í Napólí. Pizzan þeirra er þekkt fyrir þunna og mjúkan botn og fersk, einföld hráefni. Napólí er líka þekkt fyrir sitt sterka espresso kaffi, sem allir verða að bragða á.
Pizza, kaffi og fullt af sögu er hreinlega samsetning, sem getur ekki klikkað í Napólí!
Ómetanlegar söguslóðir Pompeii
Hin forna borg Pompeii er í nágrenni við borgina Napólí á suður Ítalíu. Talið er að um tuttugu þúsund manns hafi búið í Pompei þegar mest var og flestir stunduðu þeir viðskipti af ýmsu tagi.
Pompeii var rómverskur verslunarstaður og íbúarnir voru frægir fyrir að byggja sér glæsileg hús og vera snillingar í að útbúa gómsæta fiskrétti. Pompeii eyðilagðist ásamt fleiri bæjum og borgum í kröftugu eldgosi úr eldfjallinu Vesúvíusi 24. ágúst árið 79 eftir Krist.
Sorrento – Draumastaður við Amalfi-ströndina
Sorrento, sem liggur við strandirnar á suðvesturhluta Ítalíu, er dásamlegur áfangastaður á hinni fögru Amalfi-strandlengju. Þessi heillandi bær er staðsettur í hlíðum þar sem finna má heillandi landslag og fegurð Miðjarðarhafsins, Sorrento er í raun fullkominn staður fyrir þá sem vilja blanda saman náttúrufegurð, iðandi menningu og afslöppun.
Sorrento er með einstakt útsýni yfir Napólí-flóa og Vesúvíus-eldfjallið. Í bænum eru einnig sögulegar byggingar frá tímum Rómverja og fallegar gamlar kirkjur. Í Sorrento má finna notalegar verslunargötur, góðar gönguleiðir og úrval góðra veitingastaða og kaffihúsa.
Capri – Þar sem rómantíkin svífur yfir vötnum
Capri, hin heillandi eyja á Napólí-flóa, hefur lengi verið talin einn af glæsilegustu áfangastöðum Ítalíu. Þessi litla eyja er þekkt fyrir náttúrufegurð, fallegt útsýni, glæsilegar villur og dásamlegar hvítar strendur. Capri hefur verið vinsæl meðal ferðamanna og frægðarfólks frá tíma rómverska keisarans Tiberíusar.
Eyjan er þekkt fyrir einstakt umhverfi, sem einkennist af bröttum klettum með iðagrænum trjágróðri og litríkum blómum.
Bærinn Capri er sjarmerandi með þröngum steingötum, handverksverslunum og úrvali veitingastaða þar sem hægt er að smakka ýmis konar ítalskan mat og drykki.
Capri er einnig full af sögu og menningu, þar sem þú getur skoðað rómverskar villur, eins og villu Tiberíusar, og ímyndað þér hvernig rómverskir keisarar á sínum tíma upplifðu þessa paradís. Lúxusyfirbragð eyjarinnar og óviðjafnanlegt landslagið gerir Capri að ævintýri fyrir alla sem heimsækja hana.
Fimmtudagurinn 9. október – Ferðadagur – Flug með Icelandair til Rómar
Föstudagurinn 10. október – Gönguferð um miðborg Rómar – Colosseum
Laugardaginn 11. október – Vatíkanið
Sunnudagurinn 12. október – Roman Forum og Palatine hæð – Vínsmökkun á vínbúgarði
Mánudagurinn 13. október – Napólí – Göngutúr um miðborgina
Þriðjudagurinn 14. október – Pastabærinn – Gragnano
Miðvikudagurinn 15. október – Pompeii
Fimmtudagurinn 16. október – Sigling – Ischia
Föstudagurinn 17. október – Sorrento – Bæjarferð – Limoncello
Laugardagurinn 18. október – Sigling – Capri
Sunnudagurinn 19. október – Sigling Positano – Amalfí – Salerno
Mánudagurinn 20. október – Salerno – Bæjarferð – Vínsmökkun
Þriðjudagurinn 21. október – Frjáls tími – Róm
Miðvikudagurinn 22. október – Ferðadagur – Flogið með Icelandair til Keflavíkur
Í Róm verður gist á 4* hótelinu Hotel Pineta Palace með morgunverði.
Hótelið er vinalegt og staðsett í rólegu íbúðarhverfi í vesturhluta borgarinnar en frá hótelinu er auðvelt að taka neðanjarðarlest í miðborgina og hægt að kaupa miða í lestina í gestamóttöku.
Á hótelinu eru hugguleg herbergi, sem eru búin helstu þægindum, með þráðlausu gjaldfrjálsu neti, loftkælingu, öryggishólfi, minibar, sjónvarpi, baðvörum og hárblásara.
Maturinn á gististaðnum er fjölbreyttur og þar geta allir fundið eitthvað gómsætt til að kitla bragðlaukana, sem hinir ítölsku kokkar sjá um að matreiða fyrir mannskapinn. Ríkulegt morgunverðarhlaðborð en einnig er hægt að borða á veitingastað hótelsins að loknum viðburðaríkum dögum í Róm. Á verönd hótelsins er barsvæði, sem býður upp á ljúffenga kokteila og léttmeti.
Í Napóli verður gist á 4* hótelinu Hotel Ramada Naples með morgunverði.
Hótelið er staðsett í hinni sögufrægu miðborg Napólí, aðeins 200 metrum frá lestarstöðinni og Garibaldi-torgi.
Á hótelinu eru snyrtileg herbergi, sem eru búin helstu þægindum, með þráðlausu gjaldfrjálsu neti, loftkælingu, öryggishólfi, minibar og sjónvarpi. Morgunverðarhlaðborðið hefur að geyma ferskt brauðmeti, osta, skinkur, ferska ávexti og úrval af sætabrauði.
Hótelið býður einnig upp á lítinn sundlaugargarð, þar sem tilvalið er að njóta sólar og slökunar.
Í Sorrento verður gist á 4* hótelinu Hotel Panorama Palace með morgunverði.
Hótelið stendur á fallegri útsýnishæð í Sorrento, en hótelið er staðsett í um 5 mínútna fjarlægð frá ströndinni, Meta di Sorrento og í um 5 km fjarlægð frá gamla miðbænum.
Á hótelinu eru snyrtileg herbergi, sem eru búin helstu þægindum, með þráðlausu gjaldfrjálsu neti, loftkælingu, öryggishólfi, minibar, sjónvarpi og hárblásara.
Á hótelinu er að finna þrjá huggulega innréttaða matsali, þar sem hægt er að borða bæði hádegis- og kvöldverð sem einkennist af ferskum fiskréttum og matreiðslu heimamanna. Þá er barsvæðið bjart og fallegt, með fallegu útsýni til sjávar.
Hótelið býður einnig upp á lítinn sundlaugargarð, þar sem tilvalið er að njóta sólar og slökunar.
Í Salerno verður gist á 4* hótelinu Hotel Mediterranea Salerno með morgunverði.
Hótelið stendur við sjávarsíðuna í Salerno, en hótelið er staðsett í stuttri aksturfjarlægð frá Amalfi og aðeins 900 metrar eru á ströndina.
Á hótelinu eru snyrtileg og rúmgóð herbergi, sem eru búin helstu þægindum, með þráðlausu gjaldfrjálsu neti, loftkælingu, öryggishólfi, minibar og sjónvarpi. Á hótelinu er að finna tvo huggulega innréttaða matsali, þar sem hægt er að borða bæði hádegis- og kvöldverð sem einkennist af ferskum fiskréttum og matreiðslu heimamanna.
Hótelið býður einnig upp á lítinn þakkgarð, þar sem tilvalið er að njóta sólar og slökunar.
Vinsamlega athugið að ljósmyndir af gististöðum, sem birtar eru á heimasíðu Tíu þúsund feta, eru fengnar frá gististöðunum. Þær eru aðeins til þess að gefa hugmynd um útlit þeirra. Tíu þúsund fet bera ekki ábyrgð á því ef eitthvað hefur breyst á gististöðunum frá því að ljósmyndir voru teknar. Tíu þúsund fet stjórna ekki staðsetningu farþega innan gististaða.
Í hringferð Tíu þúsund feta fara þaulreyndir íslenskumælandi fararstjórar með í ferðirnar. Rún og Trausti hafa starfað við margs konar ferðaþjónustu í 25 ár ásamt því að ferðast um víða veröld og eru viskubrunnar um sögu og menningu Ítalíu, þar sem þau störfuðu sem fararstjórar til margra ára.
Rún og Trausti munu sjá til þess að farþegar upplifi og njóti sín til fulls í þessari draumaferð um Suður-Ítalíu, þar sem fræðsla og umfram allt skemmtileg upplifun verður í fyrirrúmi.
Illugi Jökuls fræðir farþega
Í þessa ævintýralegu ferð okkar um S-Ítalíu kemur kemur Illugi Jökulsson með okkur þar sem rithöfundurinn skemmtilegi fræðir okkur á sinn einstaka hátt um sögu og siði lands og þjóðar.
Illugi er sonur Jóhönnu Kristjónsdóttur og Jökuls Jakobssonar. Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur og Hrafn Jökulsson eru alsystkini hans. Illugi er giftur leikkonunni Guðrúnu Gísladóttur. Dóttir þeirra er útvarpskonan Vera Illugadóttir.
Illugi gekk í Menntaskólann í Reykjavík, en hætti skólagöngu sinni 1979, þá í sjötta bekk. Hann hóf störf sem blaðamaður á Vísi í apríl 1979 og starfaði þar til vors 1981. Árið 1986 hóf Illugi umsjón sína á útvarpsþættinum „Frjálsar hendur“ á Rás 1 og hefur sinnt því starfi nánast sleitulaust síðan. Illugi stofnaði tímaritið Sagan öll árið 2007 og gegndi þar ritstjórnarstörfum. Einnig stofnaði hann og ritstýrði tímaritinu Skakki turninn, þar sem hann vann með Veru.
Flug
Sigling
Farangur
Hótel
Fæði – Drykkir
Akstur
Skoðunarferðir
Fararstjórn
Í nafni náttúrunnar
EKKI INNIFALIÐ
Athugið að listinn er ekki tæmandi og aðeins til viðmiðunar.
Ferðadagur
Flogið er frá Keflavíkurflugvelli með flugfélaginu Icelandair kl. 7:50 og lent í Róm kl. 14:25. Rútur bíða farþega fyrir utan flugstöðvarbygginguna en þaðan er keyrt heim á hótel, þar sem farþegar geta skráð sig inn og komið sér fyrir inn á herbergjum. Boðið verður upp á valfrjálsa ferð með neðanjarðarlest í miðborgina, þar sem tilvalið er að soga í sig anda borgarinnar og gæða sér á góðum kvöldverði á velvöldu veitingahúsi.
Gönguferð um miðborg Rómar – Colosseum
Eftir morgunverð kl. 9:00 fer hópurinn saman í gönguferð á sögufrægar slóðir Rómar. Fyrst verður gengið að Pantheon, þar sem við kíkjum inn í musterið og virðum fyrir okkur ótrúlegan arkitektúr þess. Því næst verður komið við hjá Trevi gosbrunninum, þar sem sú hefð, að kasta evru út í brunninn, hefur skapast í gegnum tíðina fyrir góðri lukku. Eftir það verður gengið að Spænsku tröppunum, lengstu og breiðustu tröppum Evrópu en þær eru jafnframt eitt helsta kennileiti borgarinnar þar sem margir viðburðir hafa verið haldnir í gegnum tíðina.
Þá göngum við frá spænska torginu og upp tröppurnar að Trinita dei Monti kirkjunni, þar sem fallegt útsýni gefst yfir svæðið.
Eftir röltið verður farið á eitt af vinsælli torgum Rómar, Navona-torgið, þar sem sem hinn frægi gosbrunnur hinna fjögurra áa stendur fyrir miðju torgi, en torgið er líka þekkt fyrir fjöldann allan af skemmtilegum kaffiteríum og veitingahúsum með iðandi mannlífi og þar ætlar hópurinn einmitt að njóta góðs hádegisverðar (valfrjáls hádegisverður)
Eftir hádegisverðinn verður hópurinn sóttur og keyrður að Colosseum, sem er stærsta hringleikahús veraldar og eitt af helstu táknum borgarinnar en það hefur verið sett á heimsminjaskrá UNESCO. Gengið verður um þessa fornsögulegu byggingu, sem er sú stærsta sinnar tegundar í veröldinni og fræðsla veitt um svæðið.
Að fræðslutúr loknum verður hópurinn sóttur á rútu og keyrður heim á hótel og þá tekur við frjáls tími.
Vatíkanið
Eftir morgunverð kl. 9:00 verður farið í Páfagarð, þar sem höfuðstöðvar kaþólsku kirkjunnar er með aðsetur páfans. Þar mun hópurinn skoða hina ægifögru Péturskirkju, sem er sú stærsta í Evrópu og Sixtínsku kapelluna, sem er einstakt listasafn í Vatíkaninu, sem reist var árið 1479 en lofthvelfing hennar er prýdd meistaraverki eftir Michelangelo. Að lokinni skoðunarferð er tilvalið að fá sér góðan hádegisverð (valfrjálst) á velvöldu veitingahúsi og njóta miðborgarinnar í frjálsum tíma.
Roman Forum og Palatine hæð – Vínsmökkun
Eftir morgunverð er frjáls tími til klukkan 14:00, þá hittist hópurinn fyrir framan hótelið og fer saman í vínsmökkunarferð á vínbúgarði rétt utan við Róm. Þar tekur við vínsmökkun og fræðsla um vínrækt þeirra heimamanna.
Akstur frá Róm til Napólí – gönguferð um miðborgina í Napólí
Eftir morgunverð kl. 10:00 verður hópurinn sóttur á hótelið og þaðan verður lagt af stað til næsta áfangastaðar, sem er hin sögufræga borg Napólí. Aksturinn á hótelið í miðborg Napólí tekur um tvær og hálfa klukkustund en þegar þangað er komið, kemur hópurinn sér fyrir á hóteli og fer síðan saman í göngutúr um miðborgina, þessa 2.500 ára gömlu borg, sem í dag er þriðja stærsta borg Ítalíu. Þar virðum við fyrir okkur fornar byggingar og torg, förum m.a. á torgið Plebiscito, skoðum Nýja kastalann, dómkirkjuna, kíkjum á aðal verslunargötuna Via Toledo og þræðum þröng stræti gömlu miðborgarinnar. Þá göngum niður að hafnarsvæðinu og að ströndinni og virðum fyrir okkur hið tignarlega útsýni yfir til eldfjallsins, Vesúvíus. Í framhaldi af göngutúrnum er tilvalið að fá sér eina ekta Napólípizzu!
Eftir morgunverð förum við í létta hálfsdagsferð í pasta-þorpið fræga, Gragnana, þar sem talið er að pastað hafi orðið til á öldum áður. Þar verður okkur boðið í smökkun og hádegisverð í ekta ítalskri pasta-verksmiðju í bænum. Þá höldum við heim á leið og bjóðum uppá frjálst síðdegi og kvöld í Napólí.
Pompeii kl. 9:30 – 16:00
Eftir morgunverð, gengur hópurinn frá farangri og skráir sig út af hótelinu og hittist í gestamóttöku, þar sem rúta bíður hópsins kl. 9:30. Frá hótelinu verður keyrt til hinnar fornu borgar, Pompeii, sem stendur undir hinu virka eldfjalli, Vesúvíus, en aksturinn þangað tekur rúma klukkustund. Góður tími verður gefinn til að skoða þessar stórmerkilegu fornu rústir, sem fundust í einum merkilegasta uppgreftri sögunnar í fornleifarannsóknum árið 1748 en borgin er talin vera frá árinu 79 e.Kr. Fræðsla verður veitt á staðnum og hádegisverður í vínkjallara við rætur eldfjallsins, Vesúvíus. Í lok dags verður keyrt til Sorrento, þar skrá farþegar sig inn og njóta síðan frjáls tíma það sem eftir lifir dags.
Sigling – Ischia kl. 9:00
Eftir morgunverð kl. 9:00 verður hópurinn sóttur og keyrður niður að bátahöfninni. Þaðan tekur við rúm klukkustundar sigling yfir til hinnar margrómuðu eldfjallaeyjar, Ischia. Þar verður boðið upp á skoðunarferð um eyjuna í rútu, þar sem ævintýrið byrjar á Ischia brúnni þar sem hinn tignarlegi kastali Aragonese blasir við. Þá virðum við fyrir okkur hæsta fjall eyjarinnar, hið gróðursæla Epomeo-fjall, sem trónir í 789 m hæð. Þá kíkjum við í nokkra einstaka miðaldarbæi eins og Barano d’Ischia, Serrara Fontana og Forio og finnum okkur góðan veitingastað til að snæða ljúffengan hádegisverð að hætti eyjaskeggja. Kíkjum í hina dásamlegu kirkju Soccorso og miðaldarturninn, Torrione. Síðast en ekki síst verður farið að hinum sveppalaga kletti niðri við sjóinn, Lacco Ameno og endað á Casamicciola Terme, þar sem ekki er úr vegi að gæða sér á svalandi ítölskum ís í eftirrétt. Frjáls tími verður gefinn til að njóta eyjarinnar í lok dags áður en lagt verður aftur af stað aftur til Napolí.
Sorrento – bæjarferð
Frjáls dagur í Sorrento til að njóta sólar og slökunar. Hópurinn hittist síðan síðdegis í gestamóttökunni og tekur bæjarferð saman um hin gömlu, þröngu stræti Sorrento borgar, þar sem hann sogar í sig hina einu sönnu ítölsku menningu innan um iðandi mannlíf, skemmtilegar verslanir og veitingastaði. Þá verður farið í limoncello-smökkun. Í þessari ferð má alveg fá sér annan ítalskan ís!
Sigling – Capri
Hópurinn verður sóttur eftir morgunverð kl. 9:00 og keyrður niður að hafnarsvæði Sorrento, þaðan sem siglt verður yfir til hinnar frægu eyjar Capri, sem er þekkt fyrir ríka sögu, frægt fólk sem þar hefur dvalið til lengri eða skemmri tíma, fallegar kirkjur, söfn og minnisvarða ásamt fallegum náttúruundrum eins og hellirinn, Blue Grotto og Faraglioni, sem eru þrír tignarlegir klettadrangar rétt utan við Capri. Siglingin tekur einungis um 20 mínútur og verður gefinn góður frjáls tími til að njóta á Capri áður en báturinn kemur aftur að sækja hópinn síðla dags.
Sigling Positano – Amalfi – Salerno
Eftir morgunverð hittist hópurinn í gestamóttökunni kl. 10:00. Þá þurfa farþegar að vera búnir að skrá sig út af hóteli. Þaðan verður keyrt til Positano, þar sem hópurinn fær frjálsan tíma og í framhaldinu tekur við dásamleg sigling, þar sem siglt verður undir hinum stórfenglegu klettaþorpum Amalfí-skagans. Farið í Limoncello- og vínsmökkun ásamt hádegisverði í Salerno Benevento.
Hópurinn hittist eftir morgunverð og fer saman í létta bæjarferð, þar sem boðið verður upp á vínsmökkun og hádegisverð.
Það sem eftir lifir dags er tilvalið að njóta mannlífs, slökunar og sólar.
Frjáls tími – Róm
Eftir morgunverð er frjáls tími til klukkan 14:00 en farþegar verða þó að vera búnir að skrá sig út af hóteli kl. 11:00 en geta notið alls þess sem hótelið hefur upp á að bjóða fram að brottför. Hópurinn hittist síðan kl. 14:00 fyrir utan gestamóttökuna, þar sem rúta bíður hópsins og keyrir heillandi akstursleið aftur til Rómar. Áætlað er að vera komin til borgarinnar á milli klukkan sex eða sjö, en gert er ráð fyrir stuttum stoppum á leiðinni, þar sem hægt verður að fá sér hressingu. Kvöldið í Róm er síðan frjálst.
Ferðadagur – Flogið með Icelandair til Keflavíkur
Eftir morgunverð er frjáls tími til hádegis til að njóta stundarinnar í Róm en hópurinn verður svo sóttur fyrir framan hótelið kl. 12:30. Þaðan verður ekið á flugvöllinn í Róm, þar sem áætluð brottför með Icelandair er kl. 15:55 og áætluð lending í Keflavík kl. 18:45.