Ógleymanlegt ævintýri á Grænlandi fyrir náttúruunnendur og þá sem hafa gaman af að kynnast framandi menningu og sögu en Grænland er þekkt fyrir óviðjafnanlega villta náttúru, þar sem háir ísjakar, fallegir firðir, jöklar og stórbrotið landslag setur svip sinn á umhverfið ásamt merkilegri sögu heimamanna sem hafa m.a. stundað sel-, hval- og fiskveiðar í gegnum aldirnar og ferðast um á hundasleðum.
Eyjan býður upp á óþrjótandi afþreyingu, sem er að mörgu leyti ólík því sem við eigum að kynnast á hefðbundnum ferðalögum um heiminn og í þessari einstöku ferð með Tíu þúsund fetum verður m.a. boðið upp á siglingu innan um magnaða ísjaka, farið í jöklaferð og heimsókn í 40 m djúpan íshelli. Þá verður farið í einstaka veiðiferð, þar sem aflinn verður verkaður, eldaður og borðaður í óviðjafnanlegu landslagi. Í ferðinni verður einnig boðið upp á tvær heilsdags siglingar þar sem maður og náttúra renna saman í eina heild í stórkostlegu landslagi, þar sem ísjakar og skriðjöklar láta í sér heyra og gömul þorp heimsótt.
Þá verður farið í áhugaverðar gönguferðir, annars vegar um bæinn Kulusuk með viðkomu á sögusafn þeirra heimamanna en einnig verður farin falleg gönguleið í Blómadalinn í Tasiilaq og kíkt á sleðahunda, þar sem fræðsla verður veitt um þessa mögnuðu skepnur, sem hafa auðveldað líf heimamanna frá örófi alda á Grænlandi.
Síðan fer auðvitað enginn frá Grænlandi án þess að fylgjast með heimamönnum útbúa fallega listmuni úr m.a. hreindýrshornum og sjá þá stíga þjóðlegan dans og leika á trommur í sínum litríku og fallegu þjóðbúningum úti í náttúrunni.
Hér finnur þú ævintýraferðina okkar til Grænlands.