Ógleymanlegt ævintýri í Bandaríkjunum, þar sem við heimsækjum tvær frábærar stórborgir með fjörugu og iðandi mannlífi, Las Vegas og San Francisco og einnig stórkostlega náttúru, áhugaverða menningu og sögu. En áhersla verður lögð á hina stórbrotnu villtu náttúru sem nýtur þjóðgarðsverndar og svæði sem mörg hver hafa verið sett á heimsminjaskrá UNESCO og eitt þeirra valið sem eitt af sjö undrum veraldar. Há klettafjöll, djúp gljúfur, fossar, fljót, iðagrænir skógar með risavaxin tré og þurrar eyðimerkur. Hér er í raun um að ræða sannkölluð náttúruundur, sem eiga eftir að taka stórt pláss í minningarbankanum þínum, pláss sem engin myndavél getur fangað með góðu móti.
Ef þú ert í leit að einstæðri náttúrufegurð og fjörugu mannlífi stórborganna, þá er þetta fullkomin ferð fyrir þig!
Ferðin byrjar í Las Vegas, borg sem er þekkt fyrir glamúr og glæsileika og þar sem skemmtanalífið leikur stórt hlutverk.
En þar sem að við ætlum að leita uppi eitt fallegasta landslag Bandaríkjanna þá er förinni heitið út fyrir borgina í nokkra stórkostlega þjóðgarða í nágrenni við Las Vegas og San Francisco, þar sem manneskjan verður agnarsmá í samhengi við hina mögnuðu náttúru jarðarinnar, þar sem umhverfið líkist á köflum landlagi úr villta vestrinu.
Þar er ætlunin að skoða og ganga um hverja náttúruperluna á fætur annarri, m.a. gönguleiðir í Zion-þjóðgarði, sem hafa verið valdar flottustu gönguleiðir veraldar, gönguleiðir í tignarlegri fjallafegurð sem er engri lík í Bryce-gljúfrinu, þar sem hvert sandsteina listaverkið ber fyrir augum. Þá förum við í tvær ólýsanlegar ferðir í gegnum annars vegar þröngt Antelope gljúfrið, sem myndaðist fyrir milljónum ára og er að finna í landi frumbyggja og hins vegar til Horseshoe skeifunnar, þar sem sólsetrið gerist ekki fallegra. Þá verður toppurinn á heimsókn um fylkin tvö, Utah og Arizona, klárlega hið stórfenglega Miklagljúfur, sem er ein risastór náttúruperla sem ómögulegt er að lýsa í fáum orðum, þangað á í raun hvert mannsbarn náttúrunnar að fara einu sinni á lífsleiðinni, enda eitt af sjö náttúruundrum veraldar.
Þar með lýkur ekki ferðalaginu, því næst tekur við akstur eftir hinum heimsfræga þjóðvegi Route 66 og ekið á ótrúlegar slóðir þjóðgarðsins Death Valley sem er eitt heitasta og þurrasta svæði N-Ameríku og einnig það landsvæði sem stendur hvað lægst neðan við sjávarmál, þaðan höldum við svo í tvo aðra heillandi þjóðgarða, þar sem farið verður í gönguferðir á töfrandi slóðum Sequoia-þjóðgarðsins og Yosemite-þjóðgarðsins en þar einkennist landslagið af fallegum granít-fjöllum, fossum, ám og iðagrænum skógum m.a. skógum með risavöxnum trjám, þar sem finna má hæsta tré veraldar. Þá hafa heimsfrægir klettaklifrarar klifið nokkra af hinum himinháu klettum sem þarna er að finna í þessu einstaka umhverfi.
Hér er í raun um að ræða sannkölluð náttúruundur, sem eiga eftir að taka stórt pláss í minningarbankanum þínum, pláss sem engin myndavél getur fangað með góðu móti.
Ferðinni lýkur síðan í hinni heillandi borg San Francisco, þar sem gefst tækifæri til að njóta síðustu daganna með því að skoða hið stórkostlega mannvirki Golden Gate-brúna og þeir sem ekki hafa heimsótt hið sögufræga fangelsi Alcatraz, fá tækifæri til þess.
Heimsklassa póstkortaferð!
Bandaríkin
Bandaríkin eru þekkt fyrir lifandi og fjölbreytta menningu og sögu. Þar er að finna stórborgir sem einkennast af ólíkum arkitektúr allt frá háhýsum New York borgar til sögulegra bygginga höfuðborgarinnar Washington DC. Þá eru listir, fjármál, og skemmtanalíf eitthvað sem setur sterkan svip á mannlíf stórborganna eins og rík tónlistarhefð Nashville borgar, glæsilegar Broadway leiksýningar í New York, frægar kvikmyndastjörnur í Los Angeles, heimsklassa listagallerí og söfn í Chicago, spilavíti í Las Vegas og Disney í Orlando svo fátt eitt sé nefnt. Einnig sækja námsmenn víðsvegar að úr heiminum til Bandaríkjanna til að stunda nám af ýmsu tagi í virtum háskólum á borð við Harvard og Juilliard.
Í Bandaríkjunum er rík íþróttahefð en vinsælustu íþróttagreinarnar eru ruðningur, körfubolti, hafnarbolti og fótbolti og hafa landsmenn gaman af að sækja alls kyns íþróttaviðburði í tengslum við þessar greinar eins og Ofurskálina. Þá býður landið upp á frábærar aðstæður til að stunda alls kyns íþróttir eins og tennis, golf, fjallgöngur, brettaiðkun og skíði.
Náttúra Bandaríkjanna er einstök en hún býr yfir miklum fjölbreytileika, allt frá því að bjóða upp á mögnuð strandsvæði yfir í að vera með gróðursæla skóga, kraftmikla fossa og fljót, ásamt þurrum eyðimerkursléttum og háum klettafjöllum. Í landinu er að finna tæplega 60 þjóðgarða hver öðrum fallegri með fjölbreyttu dýralífi.
Nokkrar staðreyndir um Bandaríkin!
Las Vegas
Las Vegas, sem stundum hefur verið kölluð borg syndarinnar eða borgin sem aldrei sefur, er stærsta borg Nevada með um 650 þúsund íbúa.
Borgin er einkum þekkt fyrir spilavíti og skemmtanalíf og hefur fyrir vikið verið vinsæll áfangastaður ferðamanna. Hún er einnig fræg fyrir þá listamenn sem þar störfuðu eins og Elvis Presley, Frank Sinatra, Tom Jones og Céline Dion.
Það þykir líka mikið sport að gifta sig þar, því þar er að finna margar brúðkaupskapellur með einföldum lagasetningum um stofnun hjúskapar. Glæsileg hótel af ýmsum stærðum og gerðum setja líka sterkan svip á borgina en þau hafa víða verið byggð í anda þekktra heimsborga.
Nevada
Nevada-ríki er á vesturhluta Bandaríkjanna með landamæri að fylkjunum Kaliforníu, Oregon, Idaho, Arizona og Utah. Nevada er þekkt undir nafninu ,,Silfurríkið” vegna þess hversu stóran þátt silfurvinnsla hefur átt í sögu ríkisins, þar sem upphaf byggðar í ríkinu byggðist m.a. á henni en Nevada býr einnig yfir öðrum auðæfum og hefur námuvinnsla með gull og kopar mikið verið stunduð í ríkinu. Þá hefur Nevada verið leiðandi í framleiðslu á endurnýtanlegri orku og þá sérstaklega nýtingu sólarorku. Ríkið er þó líklega þekktast fyrir tilraunir sínar með kjarnorku á tímum kalda stríðsins.
Landslagið í Nevada einkennist af víðáttumiklum eyðimörkum eins og Mojave Desert og The Great Basin eða lægðina miklu en þar eru ótal dalir á milli fjallgarða sem eru án nokkurs vatnsrennslis til sjávar. Vestast í ríkinu er fjallgarðurinn Sierra Nevada, sem hamlar að rakt loft berist yfir svæðið og veldur því að loftslagið í Nevada er það þurrasta í Bandaríkjunum. En þar sem mikinn hæðarmun er að finna í landslaginu, allt frá því að vera neðan við sjávarmál til hárra snæviþaktra fjallstinda og eins hversu langt ríkið teygir sig annars vegar til norðurs og hins vegar suðurs, þá getur hitamunur verið mikill bæði á milli dags og nætur og eins á milli landshluta. Í Nevada eru einnig mörg af stærstu skóglendum ríkisins eins og Nye, Elko og White Pine með fjölskrúðugu dýralífi á við svartbirni, sléttuúlfa og dádýr. Nevada býður því upp á marga möguleika til að stunda fjölbreytta og skemmtilega útivist m.a. í nokkrum fallegum þjóðgörðum ríkisins, þar sem hægt er að stunda fjallgöngur, klettaklifur og hjólreiðar.
Höfuðborgin í Nevada heitir Carson City en Las Vegas er hins vegar stærsta borgin og sú þekktasta fyrir fjölbreytt skemmtana- og næturlíf að ógleymdum spilavítum.
Utah
Utah, sem stundum hefur verið kallað Mormóna-ríkið vegna mikillar tengingar fólksins við hina kristnu kirkju, er á vesturhluta Bandaríkjanna þekkt fyrir fjölbreytt landslag þar sem finna má falleg fjöll, gljúfur og vötn ásamt eyðimörk. Þar er m.a. að finna Kings Peak sem er 4.123 m yfir sjávarmáli og The Great Salt Lake 4.400 ferkílómetrar að stærð og er þar með stærsta saltvatn Bandaríkjanna fyrir utan Vötnin miklu. Þar eru líka nokkrir stórbrotnir þjóðgarðar með rauðleitum klettafjölllum og umhverfi sem minnir einna helst á umhverfi úr villta vestrinu, þetta eru garðar eins og Bryce Canyon, Zion og Monument Valley.
Sunnan við The Great Salt Lake má finna stærstu borg Utah, Salt Lake City og er hún miðstöð stjórnmála, menningar og alls hagkerfisins í ríkinu. Í Utah er stunduð mikil námuvinnsla með gull, silfur og kopar. En ferðaiðnaður hefur einnig vaxið gríðarlega mikið á undanförnum árum ásamt tækniiðnaði, þar sem það býr yfir gríðarlegri náttúrufegurð og hefur upp á marga möguleika að bjóða fyrir ævintýragjarna náttúruunnendur og útivistarfólk. Þar er t.d. að finna gönguleiðir og skíðasvæði sem eru í heimsklassa.
Til gamans má geta þess að í ríkinu er að finna borg sem ber nafnið Spanish Fork en þar settust fyrstu Íslendingarnir að í Bandaríkjunum. Einnig var Utah vinsælt í kvikmyndaiðnaðinum á 20. öld, þar sem eyðimerkurlandslagið var notað í vestra-kvikmyndir. Þá voru Vetrarólympíuleikarnir haldnir í kringum höfuðborgina árið 2002 þar sem um 2.400 manns frá 78 löndum kepptu.
Arizona
Er sjötta stærsta ríki Bandaríkjanna og er staðsett sunnan við Utah en það á landamæri að fimm öðrum ríkjum. Landslagið í ríkinu einkennist af eyðimörkum í suðrinu en skógum í norðrinu. Þá eru þar falleg há fjöll og gljúfur og víða má finna skemmtileg skíðasvæði.
Í Arizona er einnig að finna hið stórfenglega Miklagljúfur sem er eitt af sjö náttúruundrum veraldar. Það einkennist af litríkum og bröttum klettafjöllum sem hafa mótast af Colorado-ánni. Miklagljúfur er einn af fyrstu þjóðgörðum Bandaríkjanna en það var hlutverk Roosevelt forseta að tilnefna það. Þar er að finna fjölda frábærra gönguleiða. Þá er fjöldinn allur af þjóðgörðum, skógum og minnisvörðum að finna víða um Arizona.
Í þúsundir ára áður en Spánverjar lögðu undir sig Ameríku var Arizona heimasvæði frumbyggja og hafa mörg merki þess fundist m.a. í máluðum klettamyndum og hlutum sem hafa fundist frá þeirra tíð og hefur þetta vakið mikla athygli ferðamanna.
Höfuðborgin í Arizona heitir Phoenix en sú borg er líklega einna þekktust fyrir gott gengi í körfuboltadeildinni NBA.
Arizona hefur að geyma risastóra öskju sem er ein best varðveittasta loftsteinaaskja í heimi en það er talið að loftsteinn hafi skollið á svæðið fyrir 50.000 árum. Askjan er um 170 m að dýpt og um 1,6 km í þvermál og allt í kringum hana er að finna stórgrýti sem minna á lítil hús
Kalifornía
Kalifornía er ríki staðsett við Kyrrahafið á vesturströnd Bandaríkjanna og er það fjölmennasta í landinu. Ríkið er einna þekktast fyrir að vera með stærsta og áhrifaríkasta hagkerfi í heimi en Kalifornía er leiðandi í alls kyns iðnaði eins og tækni, skemmtun, landbúnaði og flugi. Kalifornía einkennist af lifandi menningu og litríku listalífi sérstaklega í hinum frægu borgum San Francisco og Los Angeles og þar eru ágætis líkur á að rekast á Hollywood-stjörnurnar!
Þá er Kalifornía þekkt fyrir einstaka og fjölbreytta náttúrufegurð allt frá sólríkum sand- og klettaströndum yfir í skóga með risavöxnum trjám, þar sem finna má hæsta tré veraldar ásamt fallegum klettafjöllum og víðfeðmar eyðimerkur. Í þessu umhverfi má m.a. finna ótal heillandi þjóðgarða eins og Yosemite, Sequoia og Joshua Tree.
Kalifornía er líka þekkt fyrir einstaklega þægilegt veðurfar, með sólskini og hita meira eða minna allan ársins hring og er þetta góða veður ekki bara nýtt til sólbaða heldur einnig í m.a. landbúnaði eins og vín- og olíuframleiðslu.
San Francisco
San Francisco er borg sem telur tæplega 810 þúsund íbúa og er staðsett í hæðóttu landslagi á vesturströnd Bandaríkjanna á milli Kyrrahafs og San Francisco-flóa. Andrúmsloftið í borginni er einstaklega afslappað og skemmtilegt en hún hefur upp á margt að bjóða, áhugaverða sögu, menningu og náttúru.
Í borginni er að finna fjölbreytt úrval góðra veitingastaða en heimamenn eru þekktir fyrir að matreiða sannkallaðan veislumat úr fersku sjávarfangi og ekki spillir fyrir að þeir eru meistarar að búa til gott kaffi og súkkulaði með því.
Sökum þess hve hæðótt borgin er þá standa hús hennar í bröttum hlíðum og sömuleiðis liggja göturnar upp og niður þessar hæðir sem eru allt að 30 metra háar. Það er því vinsælt meðal ferðamanna að fara með gamaldags sporvögnum í útsýnisferð um þessi stræti en þess má geta að sporvagnakerfi borgarinnar er frá árinu 1873.
San Francisco er í raun fræg fyrir svo ótal margt en eitt helsta kennileiti borgarinnar er Golden Gate brúin og er hægt að virða fyrir sér þetta stórkostlega mannvirki með því að keyra, ganga eða hjóla yfir hana. Rétt utan við borgina er Alcatraz-eyjan með hinu samnefnda sögufræga og illræmda fangelsi en þangað er hægt að fara í skoðunarferð með því að sigla með ferju yfir til eyjarinnar. Tyggjóstræti, Fisherman´s Wharf og elsta Kínahverfi Norður Ameríku eru líka allt saman mjög áhugaverðir staðir innan borgarmarkanna.
Laugardagurinn 7. júní– Ferðadagur: Keflavík – Seattle – Las Vegas
Sunnudagurinn 8. júní– Las Vegas – Kynningarfundur – Frjáls dagur.
Mánudagurinn 9. júní – Las Vegas – Hoover Dam – Zion þjóðgarðurinn
Þriðjudagurinn 10. júní– Zion þjóðgarðurinn – The Narrows – 6,4 km
Miðvikudagurinn 11. júní– Bryce Canyon þjóðgarðurinn – 4,6 km
Fimmtudagurinn 12. júní– Antelope-gljúfrið – 1,8 km – Horse Shoe Bend – Monument Valley
Föstudagurinn 13. júní– Monument Valley – jeppaferð – frumbyggjar – Miklagljúfur
Laugardagurinn 14. júní– Miklagljúfur eitt af sjö undrum heims – 4-10 km
Sunnudagurinn 15. júní – Route 66 – Death Valley
Mánudagurinn 16. júní– Death Valley þjóðgarðurinn
Þriðjudagurinn 17. júní – Sequoia þjóðgarðurinn – hæsta tré veraldar – 12 km
Miðvikudagurinn 18. júní – Sequoia þjóðgarðurinn – Buena Vista – 3,2 km
Fimmtudagurinn 19. júní – Yosemite þjóðgarðurinn
Föstudagurinn 20. júní – Yosemite þjóðgarðurinn – Vernal og Nevada fossarnir – 11,2 km
Laugardagurinn 21. júní – Yosemite – San Francisco – Golden Gate brúin
Sunnudagurinn 22. júní – San Francisco – frjáls dagur – Mælum með ferð í Alcatraz-fangelsið
Mánudagurinn 23. júní – Heimferð: San Francisco – Seattle – Keflavík (lent 24. júní).
Í skoðunarferðum er þó nokkur ganga í mishæðóttu landslagi og því mikilvægt að vera heilsuhraustur. Í Antelope-gljúfrinu þarf að fara upp stiga þegar farið er upp úr gljúfrinu. Þeir sem finna til innilokunarkenndar, gætu fundið fyrir henni í Antelope-gljúfrinu, þó er vakin athygli á að nokkuð vítt er milli veggja, hátt til lofts og víða sést í bláan himin og það má í raun ekki láta innilokunarkenndina hafa yfirhöndina, því fegðurðin er ólýsanleg! Þeir sem treysta sér ekki í einstakar göngur ferðarinnar, geta ávallt fundið sér eitthvað annað til dundurs, t.d. léttari göngur eða hugleiðslu í óviðjafnanlegu umhverfi. Akstur er þónokkur. Mannlíf í Las Vegas getur verið yfirþyrmandi.
Gist verður á vönduðum og snyrtilegum þriggja stjörnu hótelum með morgunverði alla dagana. Á komukvöldi verður boðið upp á kvöldverð og hið sama á við um lokakvöld ferðarinnar.
Í þessari sérferð Tíu þúsund feta fara þaulreyndir íslenskumælandi fararstjórar, þau Rún Kormáksdóttir og Trausti Hafsteinsson. Þau hafa starfað við margs konar ferðaþjónustu í 25 ár ásamt því að ferðast um víða veröld m.a. á þessar einstöku slóðir þessara fjögurra ríkja Bandaríkjanna. Þau munu sjá til þess að farþegar upplifi og njóti sín til fulls í þessari ævintýralegu draumaferð, þar sem fræðsla og umfram allt ólýsanleg upplifun verður sett í fyrsta sæti.
Ferðadagur
Flogið er til Seattle með Icelandair laugardaginn 7. júní. Flugið er áætlað frá Keflavíkurflugvelli klukkan 10:30 og lending í Seattle er kl. 11:20. Áætlað flug með Alaska Airlines er frá Seattle kl. 13:45 og lending í Las Vegas er klukkan 16:20. Farþegar verða sóttir út á flugvöll og keyrðir á hótel í Las Vegas.
Las Vegas – Kynningarfundur kl. 9:00
Að loknum kynningarfundi er frjáls dagur í Las Vegas, Borg syndarinnar! En meðal þess sem hægt er að gera í borginni er að fara á hin ýmsu söfn eins og mafíusafnið, þar sem farið er yfir hvernig skipulögð glæpastarfsemi mafíunnar hafði áhrif á samfélagið í Ameríku.
Borgin býður líka upp á fjölda skemmtigarða og fallega grasagarða, magnaðar byggingar sem hafa verið reistar í anda borga víða um heim eins og Eiffelturninn og Frelsisstyttuna að ógleymdum spilavítum í hundruðatali og alls kyns leik-, dans- og söngleikjasýninga, þar sem hæst ber að nefna vatnleikjasýningu sirkushópsins Cirque du Soleil.
Rölt um stræti borgarinnar að kvöldlagi er líka heilmikil upplifun, því ljósadýrðin er engri lík. Rölt um Fremont Street er nauðsynlegt en þar eru nokkur svið þar sem haldnar eru ýmsar sýningar á hverju kvöldi, ferðamönnum að kostnaðarlausu en strætið er m.a. þekkt fyrir fyrsta hótel borgarinnar sem var reist árið 1906 og þá var fyrsta leyfið til að vera með spilavíti veitt í þessu fræga stræti.
Gosbrunnasýningu borgarinnar má heldur enginn missa af, þar sem litum prýtt vatnið er látið dansa við hvert tónverkið á fætur öðru. Það er í raun hægt að gera allt sem hugurinn girnist í þessari mögnuðu borg!
Hoover Dam – Zion þjóðgarðurinn
Eftir morgunverð á hóteli, kveðjum við glamúrborgina Las Vegas og höldum í allt aðrar áttir, þar sem við upplifum náttúruna í öllu sínu veldi. Við keyrum sem leið liggur til Zion-þjóðgarðsins með viðkomu hjá hinu ótrúlega mannvirki Hoover stíflunni, sem stendur við landamæri Nevada og Arizona og stíflar Colorado-fljótið. Þaðan er svo ekið í fallegu eyðimerkurlandslagi Nevada og Utah en þegar á leiðarenda er komið, koma farþegar sér fyrir á hóteli og fá frjálsan tíma fram að kvöldmat til að rölta um og kanna hið nýja óviðjafnanlega umhverfi.
Zion þjóðgarðurinn – The Narrows 6,4 km 102 m hækkun.
Eftir morgunmat fer hópurinn saman inn á göngusvæði þjóðgarðsins, þar sem við taka göngur í fallegum gljúfrum innan um brött og litrík klettafjöllin. Hægt verður að velja gönguferðir eftir getustigi. Mesta upplifunin er þó án efa að ganga eina af fallegustu gönguleiðum heims, The Narrows, en leiðin liggur eftir Virgen-ánni, sem þýðir það að gengið er í vatni alla leiðina! Göngugarpar fá sérstaka gönguskó og sokka og göngustaf til að styðja sig við. Leiðin sem liggur inn eftir ánni einkennist af himinháum klettaveggjum, þar sem litir og gróður setja svip sinn á umhverfið. Hér er mikilvægt að staldra af og til við og horfa upp til að njóta fegurðarinnar. Ávallt verður hægt að snúa við ef þreytu sækir að. Um kvöldið er kjörið að njóta friðarins og sólsetursins innan um litríkt fjalllendi þjóðgarðsins.
Þjóðgarður Bryce-gljúfranna – Sunrise Point – Sunset Point – 4,6 km – 183 m í hækkun
Eftir morgunverð verður lagt af stað í þjóðgarð Bryce-gljúfranna en þegar þangað er komið blasir við óvenjuleg sjón svo langt sem augað eygir, svæði sem minnir einna helst á risastóran skóg með hundruð þúsunda sandsteina tindum, sem hafa verið kallaðar ,,hoodoos”. Innan um þessi náttúruundur verður tekinn um 5 km göngutúr frá Sunrise Point til Sunset Point en á þessari leið verður m.a. komið við hjá Þórshamri ef aðstæður leyfa. Að endingu er gengið eftir fallegri gönguleið sem býður upp á heillandi útsýni, útsýni sem vert er að staldra við og setja í minningarbankann. Þegar kvölda tekur er magnað að virða fyrir sér einstakan stjörnuhimininn, þar sem truflun frá upplýstum borgum er engin og fara yfir upplifun dagsins áður en gengið er til náða.
Antelope-gljúfrið – Horse shoe Bend – Monument Valley
Eftir morgunverð er förinni heitið í rútu á svæði frumbyggjanna, þar ætlum við að þræða einstakt gljúfur sem myndaðist fyrir mörgum milljónum ára og hefur mótast í gegnum árin með flóðum, vindi og rigningum og njóta þess að horfa upp eftir veggjum gljúfursins og upp í bláan himininn sem myndar skemmtilegt munstur ofan við gljúfrið. Eftir þessa upplifun verður farið í stutta gönguferð út á 300 m há klettabjörg með yfirsýn yfir Colorado-fljótið sem rennur um gljúfur sem minnir á hestaskeifu. Þar vindum við ofan af allri streitu, drögum inn andann og njótum sólarlagsins áður en við höldum aftur af stað til næsta áfangastaðar sem verður Monument Valley.
Monument Valley – Miklagljúfur
Eftir morgunverð skellir hópurinn sér saman í jeppaferð í töfrandi sólarupprás innan um klettafjöll Monument Valley en þar hafa margir ,,vestrar“ verið kvikmyndaðir í gegnum tíðina. Eftir fjör á jeppunum verður haldið með rútum til Miklagljúfurs með viðkomu hjá frumbyggjum, þar sem borðaður verður hádegismatur. Við komuna til Miklagljúfurs fær hópurinn að njóta einstaks sólseturs áður en hann fer í háttinn og safnar orku fyrir stóra daginn í Miklagljúfri.
Miklagljúfur – frjáls dagur – 4 – 10 km
Eftir morgunverð er komið að því að upplifa eitt af sjö undrum heims! Dagurinn verður nýttur til þess að ganga um og virða fyrir sér þessa stórkostlegu náttúruparadís. Hópurinn fær frjálsar hendur til að ganga um svæðið en hægt er að velja úr tugum gönguleiða, þar sem gengið er í umhverfi sem er engu líkt í allri veröldinni, djúp gljúfur, háir litríkir klettaveggir og þú verður eins og lítið peð í þessari mikilfenglegu náttúru. Gott er að minna sjálfan sig á að það sem er gengið niður þarf að ganga aftur upp!
Þeir sem vilja síður ganga geta t.d. valið um að fara í þyrluflug (kostar aukalega) og einnig er hægt að nýta sér vagna sem flytja fólk á milli merkustu staðanna ofan við gljúfrið.
Route 66 – Death Valley
Snæðum morgunverð og kveðjum Miklagljúfur og keyrum eftir hinum fræga þjóðvegi 66 til Death Valley. Í þessari ferð verður lögð áhersla á að njóta rútuferðarinnar, stoppa á velvöldum stöðum til myndatöku á þessum frægu slóðum.
Death Valley – Bakersfield
Eftir morgunverð er förinni heitið í þjóðgarð sem einkennist af öfgum og andstæðum. Allt frá þurrum eyðimerkursvæðum til hárra fjallstoppa og svæða sem eru neðan við sjávarmál. Hér upplifum við þá allra heitustu, þurrustu og lægstu þjóðgarða Bandaríkjanna með heimsókn til m.a. Furnace Creek, Badwater Basin og Zabriskie Point. En á þessum ríkismörkum Nevada og Kaliforníu má í raun sjá sitt lítið af hverju í þessu magnaða landslagi. Dagurinn endar á því að við keyrum til Bakersfield en það svæði er þekkt fyrir að vera með stærstu svæðum Bandaríkjanna sem framleiða olíu til matargerðar.
Bakersfield – Sequoia þjóðgarðurinn – 12 km – hækkun 549 m
Eftir morgunverð keyrum við frá Bakersfield til Sequoia þjóðgarðsins, þar sem granít-fjöll og risavaxin tré eru ráðandi í landslaginu. Farið verður í göngu þar sem við skoðum hæsta tré veraldar, General Sherman, sem er innan um önnur heimsins hæstu og elstu tré og inn á milli blasir við fallegt útsýni yfir skóga, fjöll og dali.
Visalia – Sequoia þjóðgarðurinn – 3,2 km – hækkun 125 m.
Eftir morgunmat verður ekið aftur til Sequoia þjóðgarðsins, þar sem deginum verður eytt á göngu innan um þessi risavöxnu tré og í landslagi sem er sannkallað augnakonfekt með fallegum stórum dölum og fallegum fjöllum. Gengin verður falleg leið upp á Buena Vista tindinn en þegar þangað er komið blasir við fallegasta útsýnið yfir þjóðgarðinn.
Sequoia – Yosemite þjóðgarðurinn
Eftir morgunverð verður haldið í rútuferð út á þjóðveginn og ferðast í gegnum Sierras til suðurhluta Yosemite þjóðgarðsins, þar sem gríðarleg fegurð blasir við með 16 tegundum granít-klettafjalla og skógum, sem minna á landslag úr fallegu ævintýri, en inn á milli má sjá kraftmikla fossa og fjölskrúðugt villt dýralíf.
Yosemite þjóðgarðurinn – Vernal og Nevada falls – 5- 6 klst. 11,2 km hækkun 610 m
Eftir morgunverð bíður viðburðaríkur dagur í Yosemite þjóðgarðinum, hópnum verður skutlað á litlum farartækjum út í þjóðgarðinn, þar sem gengin verður ein fallegasta leið þjóðgarðsins. Gengið er með Merced ánni og upp hina svokölluð Mist-leið, þar sem Vernal-fossinn úðar hressandi vatni yfir göngugarpa. Þegar upp á fossbrúnina er komið er farið yfir ána og gengið upp nokkur þrep til að komast að Nevada-fossinum. Þar njótum við útsýnis til High Sierra, Half Dome, Liberty Cap og Mount Broderick. Þegar þessari göngu lýkur er hægt að njóta þess að taka styttri göngu í frjálsum tíma og ganga Lower Yosemite Fall leiðina og Bridalveil Fall leiðina og slaka á undir himinháum granít-klettafjöllum Half Dome eða El Capitan en þar er ekki ólíklegt að sjá klettaklifrara spreyta sig á klifri. Einnig er hægt að taka sér hjólreiðatúr en hann kostar aukalega.
Yosemite þjóðgarðurinn – San Francisco
Eftir morgunmat kveðjum við hinn fagra Yosemite þjóðgarð og höldum til San Francisco en þá er ekki úr vegi að fara yfir farinn veg á leiðinni og rifja upp alla stórkostlegu staðina sem við verðum búin að fara á, á þessum tímapunkti. Ferðin er þó ekki búin þó við segjum skilið við öll náttúruundrin, því næst tekur við heimsókn til einnar skemmtilegustu borgar Bandaríkjanna. Við komuna til San Francisco munum við taka hádegisverð í Haight Ashbury hverfinu og fara í kjölfarið í Golden Gate-garðinn og virða fyrir okkur hið stórmerkilega mannvirki sem Golden Gate-brúin er og jafnvel stíga fæti á brúna. Eftir það verður keyrt heim á hótel og gefinn frjáls tími. Um kvöldið er ekki vitlaust að nota frjálsan tíma til að kíkja á litríkt mannlífið í Fisherman´s Wharf og gæða sér á fersku sjávarfangi á velvöldum veitingastað. Hoppa jafnvel upp í sporvagn og láta hann flytja sig á milli hæða, koma svo við í bóka- eða plötubúð, skella sér á diskótek í kirkju og leika listir á línuskautum.
Frjáls dagur
Mælum með ferð á fangelsissafnið í Alcatraz, mjög mikilvægt að panta miða á safnið tímanlega og mæta tímanlega í ferjuna.
Heimferð
Farþegar verða sóttir heim á hótel kl. 8:00 og ekið út á flugvöll. Flogið með Alaska Airlines frá San Francisco kl. 13:00 og lent í Seattle kl. 15:56. Flug Icelandair frá Seattle er áætlað kl. 18:55 og lending á Keflavíkurflugvelli kl. 9:15 þann 24. júní.
Ofangreind dagskrá er birt með fyrirvara. Tíu þúsund fet áskilja sér rétt til að breyta dagskrá ef á þarf að halda með tilliti til veðurs og annarra aðstæðna, að sjálfsögðu með heill farþega í fyrirrúmi.
Flug:
Farangur:
Hótel:
Fæði:
Akstur
Skoðunarferðir
Fararstjórn
Í nafni náttúrunnar
EKKI INNIFALIÐ
Athugið að listinn er ekki tæmandi og aðeins til viðmiðunar.