Hvað er mikilvægast fyrir farþega að vita um þig?
Ég er algjör heimsborgari! Tala fimm tungumál, hef búið á átta mismunandi stöðum í heiminum og verið í sjö skólum… nei, það truflaði mig ekki neitt, ég elska að hafa kynnst fólki víðsvegar að úr heiminum. Nú hef ég í mörg hús að venda víðsvegar um heiminn. Ég er leikkona að mennt en ólst upp við fararstjórn síðan ég fæddist og starfaði sem slíkur í mismunandi löndum á seinni árum.
Hver eru eftirminnilegustu ferðalögin þín?
Menningarsjokkið á Indlandi. Húsbílaferðalagið innan um birni í Alaska. Ferðalag um alla vesturströnd Bandaríkjanna.
Hver eru skemmtilegustu ferðalögin?
Skíðin eru alla vega mjög hátt skrifuð á þeim lista. En svo eru skemmtilegustu ferðalögin þau sem innihalda skemmtilega ferðafélaga, ævintýri, upplifun á menningu heimamanna í hverju landi fyrir sig og mismunandi matur. Síðan er siglingin á skemmtiferðaskipinu, sem ég fór í sumarið 2023 alveg á topp 10 listanum!
Hver er erfiðasta upplifun þín á ferðalagi?
Ætli það sé ekki að sjá alla fátæktina í þriðju ríkjum heims eins og í Indlandi.
Hefur þú fundið fyrir kvíða á ferðalagi?
Já í öllum flugunum, sem ég þurfti að fara í, á meðan COVID19 var í hámarki. En ég stundaði nám í Listaháskóla Barcelona á þeim tíma og reyndi mikið á í fríum að komast heim og eins að komast aftur til Barcelona í tæka tíð áður en skólinn hófst. Fékk alltaf massívan kvíðahnút í magann að vera ekki leyft að komast heim til fjölskyldunnar eða þá að ég kæmist ekki aftur út í skólann á réttum tíma.
Hvaða ferðamáti finnst þér skemmtilegastur í útlöndum?
Skemmtiferðaskip, húsbíll og vespur.
Hefur þú fundið fyrir hræðslu á ferðalagi?
Nei, ekki svo ég muni til. Nema þá bara svona rétt á meðan ég er að hlaupa á 100 km hraða til að ná tengiflugi því fyrra fluginu seinkaði rosalega hehe.
Hver er rosalegasta borg sem þú hefur heimsótt?
Las Vegas klárlega, algjör sturlun.