Tíu þúsund fet bjóða nú upp á glæsilega fræðslu- og skemmtiferð starfsfólks skóla til Marrakech, hinnar litríku og skemmtilegu borgar Marokkó. Íslenskumælandi fararstjórar halda utan um hópinn í borginni. Miðað er við beint flug frá Keflavík og dagskrárliðir eru styrkhæfir frá KÍ.
Tvær ferðir í boði: 24.-27. apríl og 1.-4. maí.
Tíu þúsund fet kynna meiriháttar fræðsluferð til Marrakech, rauðu perlunnar í Marokkó. Ferðin er sérsniðin fyrir starfsfólk skóla. Dvalið er á huggulegu hóteli nærri gömlu borginni þar sem vel fer um farþega.
Þaulreyndir íslenskumælandi fararstjórar halda utan um hópinn og fræða um land, menningu, siði og þjóð. Innifalið í ferðinni er borgarferð í Marrakech og skólaheimsóknir. Þá er möguleiki á valfrjálsum dagskrárliðum, líkt og árshátíðarkvöldi úti í eyðimörkinni, kameldýrareið, hammam & argan-nuddi, jóga, paragliding, fjórhjólasafarí og loftbelgjaflugi.
Hér er frábært tækifæri til að upplifa stórbrotna menningu og njóta óþrjótandi afþreyingarmöguleika á sólríkum slóðum. Þú finnur ekki betri leið til að hrista hópinn saman og skemmta sér og fræðast um lifandi menningu, mannlíf og skólastarf á framandi slóðum.
Marokkó er einkar heillandi land í Norður-Afríku aðeins spölkorn frá landamærum Spánar handan Gíbraltarsunds, með landamæri að Sahara eyðimörkinni í suðri og Alsír í austri. Það má í raun segja að Marokkó standi á krossgötum austurs og vesturs, Afríku og Evrópu, og Miðjarða- og Atlantshafsins. Landið telur rúmlega 446 þúsund ferkílómetra og þar búa tæplega 32 milljónir manna en land og þjóð hafa mótast af ýmsum samskiptum Berba, Araba, Afríkubúa, Gyðinga og Evrópubúa.
Landið er þekkt fyrir fjölbreytta náttúru og fallegt landslag, ríka menningararfleifð og sögu og heillandi borgir með skemmtilegu mannlífi sem litast af litríkum mörkuðum og matargerðarlist.
Ein af stærri borgum Marokkó er Marrakech en hún var um tíma höfuðborg landsins. Borgin er þekkt fyrir heillandi menningu, sem hefur orðið fyrir sterkum áhrifum hefða frá Berbum, Aröbum og Evrópubúum, en þau birtast einna helst í tónlist, dansi og hátíðarhöldum þeirra heimamanna. Þá er borgin rík af sögu og fallegum byggingum en þar er m.a. að finna hina glæsilegu Bahia-höll, hin merkilegu Saadian grafhýsi og Koutoubia moskuna.
Markaðurinn innan veggja gamla bæjarhlutans er frægur fyrir iðandi mannlíf og sín þröngu stræti þar sem finna má litríkan og heillandi söluvarning eins og keramikvörur, hljóðfæri, töskur, lampa, krydd, skart og málverk svo fátt eitt sé nefnt. Toppurinn við markaðinn er svo auðvitað Jemaa el-Fna torgið, þar sem hægt er að fylgjast með listamönnum leika listir sínar, eins og þjóðdansa og slöngutemjara.
Veitingastaðir eru heldur ekki af verri endanum og má m.a. finna sannkallaðan veislumat sem einkennist af ýmsum þjóðarréttum eins og tagine, þar sem kjöt eða fiskur er borinn fram með alls kyns grænmeti, döðlum, sveskjum og hinu þekkta kúskúsi í þar til gerðum litríkum keramikpottum. Heimamenn eru líka þekktir fyrir sín góðu krydd, sem gera það að verkum að maturinn verður aldrei neitt annað en algjört lostæti. Veitingastaðirnir eru líka jafn fjölbreyttir eins og þeir eru margir og hægt að njóta matar ýmist uppi á húsþökum staðanna með útsýni yfir fjölskrúðuga borgina eða inni í fallega skreyttum sölum, þar sem gestum líður einna helst eins og kóngafólki.
Það skemmtilega við Marrakech er að það er stutt að fara út í fallega náttúruna, þar sem hún er umkringd Atlas-fjöllunum, þar sem boðið er upp á alls kyns afþreyingu eins og fjallgöngur, hjólreiðaferðir, kameldýrareið og ferð í loftbelg!
MARRAKECH
Borgin er höfuðstaður suðvesturhluta landsins og er fjórða fjölmennasta borg Marokkó. Líkt og margar borgir landsins samanstendur borgin af gömlum bæjarhluta, svokallaðri medinu sem skilur sig frá nýrri hverfum. Í gamla borgarhlutanum ríkir skemmtileg stemning með loftfimleikamönnum, vatnsölumönnum, dönsurum og tónlistarmönnum. Þar má svo borða góðan mat á opnum veitingastöðum á torgum borgarinnar.
Merking heitisins á borginni er komið úr tungu Berbanna og þýðir í raun “land Guðs”. Á 11. öld er talið að ættkvíslir Berbanna frá Sanhaja-eyðimörkinni hafi kastað niður tjöldum sínum á Marrakech-sléttunni og þannig myndað byggð á svæðinu árið 1062.
Á blómaskeiði borgarinnar varð Marrakech höfuðborg Marokkó þar sem fjöldi skálda og fræðimanna flykktust til borgarinnar. Síðar varð borgin þekkt fyrir hina ,,sjö heilögu” dýrlinga borgarinnar sem laðað hafa pílagríma víða að.
Marrakech er staðsett við rætur Há-Atlasfjallanna, hæsta fjallgarði í Norður-Afríku, sem nær hæst í 4000 m.y.s. Þar má finna snjó á fjallstoppunum allt árið um kring. Í kringum borgina er mikil plöntuflóra og rík ávaxtauppskera. Loftslag borgarinnar er frekar þurrt, með rökum vetrum og heitum og þurrum sumrum.
Borgin er mikil viðskiptaborg og þar skerast járnbrautaleiðir og þjóðvegir og auk þess er hún miðstöð úlfaldalesta. Þarna er margs konar framleiðsla, s.s. ávaxtavinnsla og þó nokkur ræktun á grænmeti. Einnig eru þar sútanstöðvar, framleiðsla kasmírullar, hveitis, byggingarefna og hefðbundinn handiðnaður er enn þá stundaður t.d. leðurvinnsla og teppavefnaður.
Fimmtudagur
Ferðadagur: Keflavík – Marrakech
Föstudagur
Skólaheimsóknir & fræðsla.
Fræðandi bæjarferð með íslenskri fararstjórn síðdegis. Markaður & iðandi mannlífið.
Laugardagur
Matreiðslunámskeið – marrokósk matargerðarlist! (valfrjálst)
Jóga í eyðimörkinni! (valfjálst)
Kvöldskemmtun í eyðimörkinni! (valfrjálst)
Valfrjálsir dagskrárliðir:
Heilsulind (hammam & nudd), kameldýrareið, fjórhjólasafarí og loftbelgjaferð (allt valfrjáls)
Sunnudagur
Frjáls morgunn í borginni.
Ferðadagur: Marrakech – Keflavík
Gist er á 4* hótelinu Palm Menara með morgunmat inniföldum.
Hótelið er vel staðsett í aðeins 30 metra fjarlægð frá hinum víðfræga Majorelle-garði.
Gestamóttaka hótelsins er opin allan sólarhringinn. Þar er gjaldfrjálst þráðlaust net og í hverju herbergi má finna loftkælingu og flatskjá með gervihnattasjónvarpi.
Á hótelinu er veitingastaður en á 6. hæðinni má einnig finna SKY-barinn þar sem hægt er að njóta matar og drykkjar. Þaksundlaug er síðan að finna á toppi byggingarinnar.
Palm Menara hótelið er í stuttri göngufjarlægð frá gamla bæjarhlutanum í Marrakech og tekur aðeins um 10 mínútur að ganga á hið sögufræga Jemaa El Fna torg og í nærliggjandi verslunarmiðstöðvar.
Vinsamlega athugið að ljósmyndir af gististöðum, sem birtar eru á heimasíðu Tíu þúsund feta, eru fengnar frá gististöðunum. Þær eru aðeins til þess að gefa hugmynd um útlit þeirra. Tíu þúsund fet bera ekki ábyrgð á því ef eitthvað hefur breyst á gististöðunum frá því að ljósmyndir voru teknar. Tíu þúsund fet stjórna ekki staðsetningu farþega innan gististaða. Athugið einnig að gististaðir geta breyst en þá er ávallt boðið upp á sambærilega gististaði eða betri.
Í framandi ferðum Tíu þúsund feta fara þaulreyndir íslenskumælandi fararstjórar með í ferðirnar. Rún og Trausti hafa starfað við margs konar ferðaþjónustu í 25 ár ásamt því að ferðast um víða veröld, meðal annars hafa þau farið til margra ára með Íslendinga til Marokkó og eru því viskubrunnar um sögu og menningu landsins. Þau eru bæði kennaramenntuð.
Rún og Trausti munu sjá til þess að farþegar upplifi og njóti sín til fulls í þessari draumaferð um Marrakech, þar sem fræðsla og umfram allt skemmtileg upplifun verður sett í forgang.
Flug:
Farangur:
Hótel:
Fæði:
Akstur
Ferðir
Fararstjórn
Í nafni náttúrunnar
EKKI INNIFALIÐ