Ógleymanlegt draumaferðalag á framandi slóðir Brasilíu, þar sem hver perlan á fætur annarri verður skoðuð í ólýsanlega fallegu umhverfi. Hér er einfaldlega á ferðinni draumaferðin, sem enginn ætti að missa af, þar sem náttúra, menning, saga, matur og drykkir leika stórt hlutverk.
Ólýsanlegt draumaferðalag á framandi slóðir Brasilíu, þar sem hver perlan á fætur annarri verður skoðuð í umhverfi sem á sér fáa líka. Hér er einfaldlega á ferðinni draumaferðin, sem enginn ætti að missa af, þar sem náttúra, menning, saga, matur og drykkir leika stórt hlutverk.
Í þessari meiri háttar ferð verður byrjað á heimsókn til einnar fallegustu borgar veraldar, Rio de Janeiro, sem býr yfir stærsta þéttbýlisskógi veraldar og einni stærstu og mikilfenglegustu náttúrulegu höfn heims ásamt hinum glæsilegu ströndum Copacabana og Ipanema. Í samneyti við þessa mögnuðu náttúru, má sjá fjöruga apa í trjám á hornum næstu götubara, blómlegar orkideur og iðandi litríkt mannlíf.
Strendurnar einkennast einnig af skemmtilegu mannlífi, þar sem túristar njóta lífsins innan um heimamenn. Þar má sjá fólk við ýmsa leiki og stunda strandíþróttir eins og blak og djarfa brimbrettakappa í öldunum. Þá er ekki óalgeng sjón að sjá fólk með ferskt kókoshnetuvatnsglas í hönd eða sötra Caipirinha í góðra vina hópi að fylgjast með sólsetrinu við Dois Irmaos, Tveggja-bræðra-tindana.
Í þessari ferð verður engu til sparað, við munum heimsækja m.a. hina stórfenglegu Kriststyttu, sem var valin ein af sjö undrum veraldar og förum upp á hinn magnaða tind Sykurhleifsins en kletturinn hefur verið settur á heimsminjaskrá UNESCO. Þess má einnig geta að Ríó hefur verið sett á heimsminjaskrá UNESCO og er hún vinsælust borga heim að sækja af ferðamönnum.
Eftir heimsókn okkar til Rio de Janeiro er haldið inn í hinn stórfenglega þjóðgarð Iguazu, þar sem er að finna magnaða fossa, Iguazú-fossana en þeir eru einir af sjö náttúruundrum veraldar með yfir 275 kraftmikila fossa, sem mynda keðju sem spannar um 2,7 km að lengd og gerir þá að umfangsmestu fossum heims. Fossarnir eru margir um 80 m á hæð og 80% þeirra er að finna Argentínumegin. Árnar sem renna í þá marka landamæri á milli Brasilíu, Argentínu og Paraguay. Fossarnir verða skoðaðir beggja vegna landamæra Brasilíu og Argentínu ásamt því verður valfrjáls möguleiki að skreppa yfir landamæri Paraguay.
Það er í raun ólýsanleg tilfinning að ganga um svæði fossanna, en frábærar gönguleiðir hafa verið útbúnar fyrir gesti þjóðgarðsins, þannig að ferðamenn komast í mikla nálæga snertingu við þennan ógnarkraft í mögnuðu umhverfi fossanna sem eru með þeim fallegustu í heimi.
Rúsínan í pylsuendanum verður ferð okkar í stærsta regnskóga veraldar, þar sem siglt verður á fimm stjörnu fljótaskipi á Amazon-fljótinu ásamt því að fara á einstakar slóðir heimamanna og frumbyggja skógarins.
Lífríki og umhverfi svæðisins, sem stundum hafa verið kölluð lungu alheimsins, eiga sér ekkert líkt í heiminum og það er hreinlega erfitt að lýsa því með orðum.
Í Amazon-skógunum er að finna fjölbreyttasta lífríki veraldar og um einn þriðji alls lífríkis í heiminum má finna í skógunum. Þar eru t.d. flestar tegundir spendýra og fiska og um 80.000 trjá- og runnategundir.
Hver veit nema að þú eigir eftir að fá draum þinn uppfylltan og sjáir eitthvað af eftirtöldum dýrategundum; pyranea-fiska, anacondur, köngulær af ýmsum stærðum og gerðum, erni, jagúar, bleika höfrunga, apa, froska, caiman (smákrókódíla), túkana, uglur, risa beltisdýr og puma.
Þetta er einfaldlega heimshluti sem er stórkostlegt að heimsækja!
Sannkölluð póstkortaferð!
Landið er þekkt fyrir lifandi menningu, fjölbreytt mannlíf og töfrandi landslag. Í landinu eru meiri háttar falleg strandsvæði, m.a. Copacabana og Ipanema í borginni Rio de Janeiro.
Þá er landið frægt fyrir tónlistina sína og dansinn, einkum samba og bossa nova og þar er uppruni hinnar stórfenglegu kjötkveðjuhátíðar, hátíðar þar sem engu er til sparað í glæsileika, með stórkostlegustu skrúðgöngum heims, tónlist og dansi.
Íþróttahefðin skipar einnig stórt hlutverk í Brasilíu, þar sem fótboltinn er fyrirferðamikill en Brasilía hefur hlotið heimsmeistaratitilinn fimm sinnum. Þá var heimsmeistarakeppnin í fótbolta haldin í Brasilíu árið 2014 og svo voru Ólympíuleikarnir haldnir í Ríó De Janeiro árið 2016.
Menning Brasilíu er samofin áhrifum frá frumbyggjum landsins, portúgölskum landvinningarmönnum og þrælum frá Afríku, þar sem skemmtileg blanda af siðum og venjum blandast saman m.a. í mat og tónlist. Brasilíubúar eru þekktir fyrir seiglu, hlýleika og ástríðu, sem eykur aðdráttaraflið til að heimsækja þetta heillandi og magnaða land.
Nokkrar staðreyndir um Brasilíu!
Rio de Janeiro
Stórborgin Rio de Janeiro er önnur stærsta borg Brasilíu á eftir Sao Paulo og var höfuðborg landsins til ársins 1960. Rio de Janeiro er lífleg strandborg sem stendur við hinn fallega Guanabara-flóa, 2550 km sunnan við miðbaug við Atlantshafið. Hún er þekkt fyrir töfrandi landslag með dásamlegum ströndum eins og Ipanema og Copacabana, gróskumikil fjöll og kennileiti eins og Kristsstyttuna og Sykurhleifinn sem hafa verið sett á heimsminjaskrá UNESCO.
Borgin er einnig fræg fyrir hina stórkostlegu kjötkveðjuhátíð, sem er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum en hún einkennist af glæsilegum skrúðgöngum, þar sem heimamenn í skrautlegum búningum dansa og leika líflega samba-tónlist frá morgni til kvölds á meðan á hátíðinni stendur.
Rio de Janeiro hefur líka ríka menningararfleifð og sögu, og ber arkitektúr borgarinnar þess sterk merki, þar sem arkitektúr frá tímum landvinninga til dagsins í dag blandast saman. Þá setja hinar svokölluðu ,,favelas“ litrík hús fátækrahverfanna svip sinn á hæðir borgarinnar.
Rio de Janeiro er í raun allt í senn blanda af mikilli náttúrufegurð, skemmtilegri menningu, sögu og einstakri upplifun.
Iguazu-fossarnir
Þjóðgarðurinn Puerto-Iguazú var settur á heimsminjaskrá UNESCO árið 1984 en þar er að finna umfangsmestu fossa heims með yfir 275 fossum sem ná yfir um það bil 3 kílómetra langt svæði. Árnar sem renna í fossana marka landamæri á milli Brasilíu, Argentínu og Paraguay. Frábærar gönguleiðir hafa verið útbúnar í kringum þessa kraftmiklu fossa sem margir hverjir eru um 80 m á hæð en þeir hafa verið valdir sem einir af sjö undrum veraldar.
Manaus
Manaus er heillandi borg staðsett í hjarta Amazon-regnskóganna í Brasilíu en hún gegnir mikilvægu hlutverki vegna staðsetningar sinnar við Amazon-fljótið, þar sem hún hefur verið miðstöð flutninga innan Amazon-héraðsins.
Þá ber miðborgin merki velmegunar frá þeim tíma sem gúmmítrjárækt var upp á sitt besta á 19. öld en þar er m.a. að finna glæsilegan arkitektúr í leikhúsi borgarinnar.
Listir, tónlist, dans og aðrar hefðir borgarinnar er litaðar af ólíkum menningarheimum sem hafa sest þar að í gegnum tíðina, frumbyggjum, Portúgölum, þrælum frá Afríku og öðrum innflytjendum.
Amazon í Brasilíu
Amazon-fljót rennur í gegnum stærsta regnskóg veraldar en skógurinn þekur heilar 6,7 milljónir ferkílómetra landsvæðis, með átta löndum í Suður-Ameríku.
Í Amazon-skógunum er að finna fjölbreyttasta lífríki veraldar og um einn þriðji alls lífríkis í heiminum má finna í skógunum. Þar eru t.d. flestar tegundir spendýra og fiska og um 80.000 trjá- og runnategundir.
Þær tegundir dýra sem má meðal annars finna í skóginum eru pírana-fiskar, slöngur og köngulær af ýmsum stærðum og gerðum, erni, jagúar, bleika höfrunga, apa, froska, caiman (smákrókódíla), túkana, uglur, risa beltisdýr og puma!
Þess má einnig geta að Amazon-fljótið hefur að geyma fimmtung alls vatns í veröldinni!
Þriðjudagurinn 29. júlí og miðvikudagurinn 30. júlí
Ferðadagur – Lissabon – Rio de Janeiro
Miðvikudagurinn 30. júlí
Velkomin til Brasilíu! Kynningarfundur á hóteli – frjáls dagur
VALFRJÁLST: SAMBA-dansnámskeið
Fimmtudagurinn 31. júlí
Markaður – Miðborg Rio de Janeiro og Sykurhleifurinn.
Föstudagurinn 1. ágúst
Dómkirkjan – Arkitektúr – 215 mósaíktröppur – Brúin Arcos da Lapa – Kriststyttan
Laugardagurinn 2. ágúst
Litla Afríka – matarmenning – SAMBA-dansskóli
Sunnudagurinn 3. ágúst
Grasagarður – paradísareyjan Gigoia
Mánudagurinn 4. ágúst
Frjáls dagur í Rio de Janeiro
VALFRJÁLST: Strandferð – kostar aukalega.
Þriðjudagurinn 5. ágúst
Frjáls dagur
VALFRJÁLST: Einkasigling og matarveisla – kostar aukalega.
Miðvikudagurinn 6. ágúst
Ferðadagur – Rio de Janeiro – Iguazu
Frjáls dagur
Fimmtudagurinn 7. ágúst
Iguazu-fossarnir Brasilíumegin – Fuglagarður – Bátsferð
Föstudagurinn 8. ágúst
Iguazu-fossarnir Argentínumegin
Laugardagurinn 9. ágúst
Ferðadagur – Iguazu – Sao Paulo – Manaus
Paraguay möguleiki fyrri hluta dags
Sunnudagurinn 10. ágúst
Frjáls dagur í Manaus
Mánudagurinn 11. ágúst
Skemmtiferðaskip 5* hótel – Sigling á Amazon-fljóti – Sólsetur
Þriðjudagurinn 12. ágúst
Skemmtiferðaskip 5* hótel – Sigling á Amazon-fljóti – Gönguferð – Bátsferðir – Fyrirlestrar – Einstakt lífríki og fljótandi eyjaklasar
Miðvikudagurinn 13. ágúst
Skemmtiferðaskip 5* hótel – Sigling á Amazon-fljóti – Frumbyggjar – Píranafiskveiðar – Fyrirlestrar – Bátsferð í myrki – Framandi lifnaðarhættir og heilsað upp á caiman í myrkrinu!
Fimmtudagurinn 14. ágúst
Skemmtiferðaskip 5* hótel – Sigling á Amazon-fljóti – Sólarupprás – Bleikir höfrungar – Fyrirlestrar – Gúmmíræktunarsafn – Galakvöld – Dýralíf og framandi saga og menning!
Föstudagurinn 15. ágúst
Sólarupprás á Amazon- fljóti – Siglingu lýkur – Frjáls dagur
Föstudagurinn 15. ágúst – laugardagsins 16. ágúst
Ferðadagar – Manaus – Lissabon
*Ítarlega dagskrá þessarar stórkostlegu ferðar má finna hér fyrir neðan.
Í skoðunarferðum er þó nokkur ganga. Ef tilhneiging er til sjóveiki, er sniðugt að gera viðeigandi ráðstafanir í siglingu á Amazon-fljóti.
Gist verður á framandi og skemmtilegum stöðum.
Í Rio de Janeiro verður gist á Pestana hótelinu í 8 nætur með morgunmat inniföldum. Hótelið sem er fjögurra stjörnu er á besta stað í Rio de Janeiro við eina frægustu strönd heims, Copacabana. Þaðan er stutt í allar áttir og í iðandi mannlíf borgarinnar. Herbergin eru snyrtileg og í þeim er Wi-fi tenging, öryggishólf og loftkæling. Gestamóttaka er opin allan sólarhringinn.
Í Iguazu verður gist á JL By Bourbon hótelinu í 3 nætur með morgunmat inniföldum. Hótelið sem er fjögurra stjörnu er vel staðsett með útsýni yfir borgina og stutt til fossanna frægu. Herbergin eru snyrtileg og í þeim er Wi-fi tenging, öryggishólf og loftkæling. Gestamóttaka er opin allan sólarhringinn.
Í Manaus verður gist á Intercity Manaus hótelinu í 2 nætur með morgunmat inniföldum. Hótelið sem er fjögurra stjörnu er vel staðsett en þaðan er mjög stutt í miðborgina þar sem hið fræga Amazon-leikhús er að finna og eins mjög stutt í verslunarkjarna.
Sigling á Amazonfljóti – Iberostar Heritage Grand Amazon 5*
Hið fljótandi fimm stjörnu glæsihótel, býður upp á einstakt ævintýri um Amazon-skógana, sem stundum eru nefndir lungu jarðar.
Farþegar geta valið á milli þriggja góðra gistimöguleika á skemmtiferðaskipinu, þ.e. að vera í káetu á Mandí-dekki 1. hæð, Tambaqui-dekki 2. hæð eða Acará-dekki 3. hæð. Allar káeturnar eru jafn stórar og útbúnar með einkasvölum, loftkælingu, sér baðherbergjum, hárblásara, öryggishólfi, minibar, sjónvarpi, sími, fríu wi-fi, herbergisþjónustu á milli klukkan 11 og 23 og vatni á flöskum. Athugið að káeturnar eru reyklausar og sömuleiðis er ekki leyfilegt að reykja úti á svölum. Þá er ekkert einnota plast um borð í skipinu. Á þilfari skipsins er svo sundlaugarsvæði, þar sem hægt er að flatmaga á sólbekkjum og njóta sólar og einstaks útsýnis.
Káetur skipsins sem eru ætlaðar fyrir tvo farþega eru ýmist með einu tveggja manna rúmi eða tveimur eins manns rúmum. Hótelið ábyrgist ekki hvort verður í boði, það fer eftir framboði hverju sinni. Ekki er möguleiki á þriggja manna káetu
Vinsamlega athugið að ljósmyndir af gististöðum, sem birtar eru á heimasíðu Tíu þúsund feta, eru fengnar frá gististöðunum. Þær eru aðeins til þess að gefa hugmynd um útlit þeirra. Tíu þúsund fet bera ekki ábyrgð á því ef eitthvað hefur breyst á gististöðunum frá því að ljósmyndir voru teknar. Tíu þúsund fet stjórna ekki staðsetningu farþega innan gististaða. Athugið einnig að gististaðir geta breyst en þá er ávallt boðið upp á sambærilega gististaði eða betri.
Í þessari sérferð Tíu þúsund feta til Brasilíu fara með þaulreyndir íslenskumælandi fararstjórar, þau Rún Kormáksdóttir og Trausti Hafsteinsson. Þau hafa starfað við margs konar ferðaþjónustu í 25 ár ásamt því að ferðast um víða veröld m.a. á framandi slóðir eins og Brasilíu. Þau munu sjá til þess að farþegar njóti sín til fulls í þessari ævintýralegu draumaferð, þar sem fræðsla og umfram allt ólýsanleg upplifun verður sett í fyrsta sæti.
Ferðadagur – Lissabon – Rio de Janeiro
Flogið er frá Lissabon þann 29. júlí kl. 23:30 til Rio de Janeiro með flugfélaginu TAP. Áætluð lending á alþjóðaflugvellinum Galeao A.C. Jobim í Rio de Janeiro þann 30. júlí er kl. 5:25. Fyrir utan alþjóðaflugvöllinn í Rio de Janeiro bíður rúta, sem keyrir beint heim á hótel, þar sem hótelið býður upp á morgunmat og eftir það geta farþegar hvílst eftir langt ferðalag.
Kynningarfundur – frjáls dagur
Frjáls dagur til að ná áttum í hinni mikilfenglegu borg Rio de Janeiro. Eftir hvíld, mælum við með að farþegar fari beint út í hið iðandi mannlíf, setji tærnar ofan í mjúkan hvítan sandinn og fái sér sopa af köldu og fersku kókosvatni á Copacabana-ströndinni! Boðið verður upp á kynningarfund kl. 15 inni á sal hótelsins. Hist í gestamóttöku.
Samba-dansnámskeið
Eftir frjálsa upplifun þennan fyrsta dag í Brasilíu er valmöguleiki á að fara saman á einn af frægustu samba-dansstöðum Rio de Janeiro.
Hópurinn, sem skráir sig til leiks verður sóttur á hótel kl. 19 og þaðan er farið á ógleymanlegan samba-dansstað, þar sem hópurinn verður kynntur fyrir hinni skemmtilegu samba-tónlistarhefð og dansi. Boðið verður upp á klukkutíma dansnámskeið og eftir það verður farið á hinn fræga samba-dansstað Rio-borgar, þar sem hópnum býðst að æfa sig í dansinum undir lifandi tónlist, njóta góðs matar og drykkjar. Athugið að matur og drykkur er innifalinn í verði ferðarinnar. Ferðin tekur á heildina fjóra tíma og verður hópurinn keyrður fram og tilbaka á dansnámskeiðið.
Hér má finna hlekk á vef þessa fræga samba-staðar:
https://www.rioscenarium.com.br/
Markaður – Miðborg Rio de Janeiro – Sykurhleifurinn
Eftir morgunverð er lagt af stað frá hóteli klukkan 9:00, þar sem hópurinn byrjar á fara á á skemmtilegan útimarkað þar sem hópnum gefst tækifæri til að kynnast matargerðarlist þeirra heimamanna og bragða á nýkreistum og ferskum ávaxtasöfum og sætabrauði og kaupa af heimamönnum ýmis konar handverk.
Eftir það verður farið inn í miðborg Rio de Janeiro, þar sem gengið verður um sögufrægar slóðir, með áherslu á fræðslu um keisaraveldið, lýðveldið og samtímasögu borgarinnar.
Klukkan 13:00 er áætlað að fara á Cais do Oriente í hádegismat, þar verður boðið upp á þriggja rétta máltíð.
Eftir hádegisverðinn er förinni heitið með kláfi upp á Sykurhleifinn, Pão de Açúcar, sem hefur verið settur á heimsminjaskrá UNESCO. Þaðan blasir við óviðjafnalegt útsýni til allra átta, meðal annars til hinnar mögnuðu Kriststyttu og yfir frægustu strendur Rio borgar.
Deginum lýkur svo heima á hóteli klukkan 19:00.
Dómkirkjan – Arkitektúr – 215 mósaíktröppur – Brúin Arcos da Lapa – Kriststyttan
Eftir morgunverð er lagt af stað frá hóteli klukkan 9:00.
Frá klukkan 12:30 til 14:30 verður farið í hádegisverð í borgarhluta, sem er orðinn meira en 100 ára. (Máltíð ekki innifalin í verði ferðarinnar).
Eftir mat verður keyrt að Corcovado hæðinni, þar sem farþegar fá lestarmiða til að fara með lest í gegnum Tijuca skóginn. Upp á Corcovado-hæðinni blasir síðan við hin magnaða 30 metra háa Kriststytta, sem breiðir út stóran faðminn yfir borgina. En styttan var valin sem eitt af sjö undrum heims árið 2007. Frjáls tími verður veittur við styttuna til klukkan 17:00.
Ferð dagsins lýkur á hóteli klukkan 18:00.
Litla Afríka – matarmenning – samba-dansskóli
Eftir morgunverð verður lagt af stað klukkan 9:00 frá hóteli og farið inn í heim, sem sögubækur samtímans hafa ekki farið mörgum orðum um.
Gengið verður í gegnum einn mikilvægasta en jafnframt einn dökkasta söguhluta Rio de Janeiro borgar, þar sem farið verður yfir sögu þrælanna, sem fluttir voru til landsins eins og hver annar söluvarningur. Einnig verður farið yfir þau áhrif sem menning Afríku hefur haft á samfélagið í Rio de Janeiro m.a. í matargerðarlist, tónlist, trúarbrögðum og myndlist. Þess má geta að hverfið var valið eitt af 25 flottustu hverfum veraldar!
Eftir gönguna kl. 12:30 verður farið á Dida bar, þar sem verður hægt að velja á milli alls konar ljúffengra rétta m.a. rækju- og smokkfiskrétta eldaða að hætti afrískrar matarmenningar með brasilísku ívafi. Einn óáfengur drykkur innifalinn.
Eftir hádegismat verður farið í heimsókn í einn af aðal samba-skólum Rio de Janeiro, þar sem farið verður yfir sögu samba og karnaval-skrúðgöngunnar. Boðið verður upp á að fara í búninga, taka örfá dansspor, myndatökur og að lokum verður skálað í einum af þjóðardrykkjum Brasilíubúa, caipirinha.
Eftir menningarlegan dag verður hópnum skilað aftur heim á hótel klukkan 18.
Grasagarður – paradísareyjan Gigoia
Eftir morgunverð verður lagt af stað klukkan 9:00 með rútum og ekið í grasagarð Rio-borgar. Þar verður tekinn göngutúr með leiðsögn og farið yfir 210 ára gamla sögu þessa fallega og merka garðs, sem var stofnaður af João ríkisstjóra Portúgal, sem vildi að reist yrði stofnun til að viðhalda loftgæðum fyrir plöntutegundir víðsvegar að úr heiminum. Í dag er þar eitt aðal rannsóknarsetur grasafræðinnar, þar sem fjölbreytileiki flórunnar nýtur sín.
Í hádeginu verður komið við á einum besta steikarstað Rio de Janeiro, Mocellin steikhúsinu, þar sem gæða nautasteikur eru grillaðar af einstakri fagmennsku, þannig að kjötið bráðnar í hverjum munnbita. Með kjötinu er boðið upp á vín frá litlum framleiðendum, sem leggja ríka áherslu á gæði framleiðslunnar. Einn drykkur innifalinn, bjór, djús eða vatn.
Eftir hádegismat verður farið í stutta siglingu í kringum paradísareyjuna Gigoia, sem stundum hefur verið kölluð Votlendi Brasilíu. Í þessari einstöku ferð innan borgarmarkanna er engu líkara en farið sé aftur í tímann, þar sem ferðalangnum er í skamma stund kippt út úr skarkala borgarinnar yfir í villta náttúru, þar sem finna má krókódíla og fjöldann allan af fuglategundum í sínu náttúrulega umhverfi. Á eyjunni búa ríflega 3.000 manns, sem lítið fer fyrir, engir bílar né vegir og mannlífið litað af ólýsanlegri ró.
Deginum lýkur um kl. 17:00 á hótelinu.
Frjáls dagur
Strandferð – önnur sýn á Rio de Janeiro! Kl. 9:00 – 16:00
Eftir morgunverð klukkan 9:00 verður lagt af stað með rútum í skemmtilega strandferð á svæði sem gefur ferðalöngum nýja og fallega sýn á borgarsvæði Rio de Janeiro. Strendurnar Grumari og Prainha eru margrómaðar fyrir fegurð sína og einstaka kyrrð og friðsæld. Þarna er engin byggð aðeins móðir náttúra í allri sinni dýrð, strendur umvafðar iðagrænum skógi og tærum sjó Atlantshafsins. Á ströndinni er öll aðstaða til að láta sér líða vel og til að njóta dagsins, sólstólar, sólhlífar, veitingastaður og salerni.
Aksturinn tekur um eina og hálfa klukkustund og því gefst einstakt tækifæri til þess að njóta og virða fyrir sér allt það sem fyrir augu ber á leiðinni.
Eftir sól og sælu á ströndinni er lagt af stað heim á leið klukkan 16:00.
Frjáls dagur
Einkasigling og matarveisla – Hálfsdagsferð – Kl. 10 – 15
Eftir morgunverð kl. 10:00 verður farið í skemmtisiglingu þar sem markmið dagsins verður að njóta góða veðursins, fagurs útsýnis í dásamlegum víkum og við fallegar strendur Rio de Janeiro og njóta vellystinga í mat og drykk en um borð verður boðið upp á sannkallaða matarveislu að hætti heimamanna, þar sem engu verður til sparað ásamt því að boðið verður upp á úrval valinna drykkja.
Ferðadagur – Rio de Janeiro – Iguazu
Eftir morgunverð er skráning út af hóteli og lagt af stað kl. 7:30 þaðan er ekið út á flugvöll og flogið með LATAM flugfélaginu frá Rio de Janeiro kl. 11:15. Áætluð lending á flugvellinum í Iguazu er kl. 13:30. Rúta sækir hópinn og er ekið beinustu leið heim á hótel, þar sem hópurinn kemur sér vel fyrir. Frjáls dagur það sem eftir lifir dags, þar sem hægt er að njóta hvíldar á hóteli, fara á markað í miðbænum eða taka strætó yfir til Paraguay, þar sem er að finna minjagripaverslanir og markaði. Hafið í huga að mikilvægt er að taka með vegabréf yfir landamærin og skilja eftir allt skart og önnur verðmæti.
*Ath. flugáætlun gæti breyst.
Iguazu-fossarnir Brasilíumegin – Fuglagarður – Bátsferð
Eftir morgunverð kl. 8:30 verður hópurinn sóttur á hótelið og lagt af stað í heilsdagsferð, þar sem hinir stórfenglegu Iguazu-fossar verða skoðaðir frá sjónarhorni Brasilíu. Gengið verður um þetta fallega svæði og farið út á útsýnispalla sem veita einstaka sýn yfir fossana, þá verður farið í magnaða bátsferð og skemmtilegur fuglagarður heimsóttur. Áætlað verður að leggja af stað úr þjóðgarðinum kl. 17:00.
Iguazu-fossarnir Argentínumegin
Eftir morgunmat verður hópurinn sóttur kl. 8:30 og farið með hann yfir til Argentínu, þar sem deginum verður eytt í að þræða stíga sem liggja á ótrúlegustu stöðum yfir þetta gríðarlega stóra vatnasvæði en fossarnir þykja mun tilkomumeiri séðir frá Argentínu. Hér verður gefinn góður tími til að rölta um svæðið og njóta þessarar ótrúlegu náttúrufegurðar.
Ferðadagur – Iguazu – Sao Paulo – Manaus
Frjáls dagur þar til hópurinn verður sóttur á hótelið um kl. 17:00 en flugið frá Iguazu er áætlað kl. 19:45 með flugfélaginu LATAM með millilendingu í Sao Paulo, þar sem áætluð lending er kl. 21:25. Frá Sao Paulo verður flogið kl. 23:30 og er áætluð lending í Manaus þann 10. ágúst kl. 2:30. Möguleiki á að fara t.d. yfir til Paraguay áður en hópurinn er sóttur á hótelið fyrir brottförina.
Við komuna til Manaus tekur við akstur með rútu heim á hótel, þar sem farþegar geta komið sér fyrir og hvílst.
*Ath. flugáætlun gæti breyst.
Frjáls dagur
Kjörið tækifæri til að hvílast eftir ferðalagið og njóta þess að rölta um gömul stræti miðborgar Manaus, stoppa á velvöldum veitingastöðum og gæða sér á lystisemdum brasilískrar matargerða.
Sigling kl. 15:00 – Skemmtiferðaskip 5* hótel – Sigling á Amazon-fljóti
Eftir morgunverð á hóteli er frjáls tími í Manaus til hádegis, þá þurfa farþegar að skrá sig út af hóteli kl. 12 og verða sóttir á rútu fyrir framan hótel. Þaðan verður keyrt niður á höfnina í Manaus, þar sem skemmtiferðaskipið bíður eftir hópnum. Þá hefst vel skipulögð skemmtileg dagskrá sem er innifalin í verði siglingarinnar.
15:00 Skráning um borð í skipið.
18:00 Lagt af stað frá Manaus og siglt á Rio Negro (Svarta fljóti) í sólsetrinu.
18:00 – 20:00 Skráning í skoðunarferðir.
20:00 – 21:30 Kvöldverður á Kuarup veitingastaðnum.
Skemmtiferðaskip 5* hótel – Sigling á Amazon-fljóti
5:30 – 11:00 Léttur morgunverður á þilfari.
7:00 – 9:00 Morgunverður á Kuarup veitingastaðnum.
8:00 – 10:00 Gönguferð um svæði Jaraqui með áherslu á einstakt dýralíf og gróður eða bátsferð um þröngan árfarveg Igarapés á svæði Jaraqui.
11:30 – 12:00 Fræðsla um Amazon-skógana inni á sal; Salão Lua.
12:00 Heimsókn upp í brú til skipstjóra – mæting í gestamóttöku.
12:00 – 14:00 Léttur hádegisverður á þilfari.
12:30 Skemmtiatriði á þilfari.
13:00 – 14:30 Hádegisverður á Kuarup veitingastaðnum.
15:00 Heimsókn upp í brú til skipstjóra – mæting í gestamóttöku.
16:30 Fræðsla um Bleiku höfrungana í Amazon-fljótinu í Salão Lua.
17:00 – 19:00 Bátsferð um eyjarnar Trés Bocas sem eru hluti af öðrum stærsta fljótandi eyjaklasa í heiminum.
20:00 – 21:30 Kvöldmatur á Kuarup veitingastaðnum.
21:30 Skemmtiatriði á þilfari.
Skemmtiferðaskip 5* hótel – Sigling á Amazon-fljóti
5:30 – 11:00 Léttur morgunverður á þilfari.
7:00 – 9:00 Morgunverður á Kuarup veitingastaðnum.
8:00 – 10:00 Skoðunarferð á slóðir frumbyggja í Rio Cuieiras, þar sem kynntir verða lifnaðarhættir, siðir og afurðir. Möguleiki á að kaupa handverk heimamanna.
11:30 – 12:00 Fræðsla um fiska sem lifa í Amazon í Salão Lua.
12:00 Heimsókn upp í brú til skipstjóra – mæting í gestamóttöku.
12:00 – 14:00 Léttur hádegisverður á þilfari.
12:30 Skemmtiatriði á þilfari.
13:00 – 14:30 Hádegisverður á Kuarup veitingastaðnum.
15:00 Heimsókn upp í brú til skipstjóra – mæting í gestamóttöku.
16:00 Bátsferð og heimsókn á sveitabæ innfæddra í Ariaú héraði eða pýraneaveiðar í Ariaú héraði.
19:30 Skemmtiatriði á þilfari.
20:00 – 21:30 Kvöldmatur á Kuarup veitingastaðnum.
21:30 – 22:30 Bátsferð í myrkrinu innan um caiman krókódíla.
Skemmtiferðaskip 5* hótel – Sigling á Amazon-fljóti
5:30 – 11:00 Léttur morgunverður á þilfari.
5:45 – 6:45 Sólarupprás á Amazon. Siglt um Ariaú svæðið og fylgst með fuglum byrja daginn í landslagi Amazona-skóganna sem er engu líkt, baðað friðsæld og geislum morgunsólarinnar.
7:00 – 9:00 Morgunverður á Kuarup veitingastaðnum.
8:00 – 10:00 Bleikir höfrungar heimsóttir í sínu náttúrulega umhverfi Amazon-fljótsins og komið við á fallegri strönd við árbakkann.
11:30 – 12:00 Fræðsla um fugla sem lifa í Amazon í Salão Lua.
12:00 Heimsókn upp í brú til skipstjóra – mæting í gestamóttöku.
12:00 – 14:00 Léttur hádegisverður á þilfari.
12:30 Skemmtiatriði á þilfari.
13:00 – 14:30 Hádegisverður á Kuarup veitingastaðnum.
14:30 – 16:30 Heimsókn á áhugavert safn, þar sem saga gúmmíræktar er rakin, m.a. hvernig menn högnuðust á stuttum tíma á ræktuninni á kostnað frumbyggjanna. Farið inn á endurgerð heimili hinna svokölluðu gúmmíbaróna og aðstöðu vinnuaflsins.
19:45 – 21:30 Gala kvöldverður á Kuarup veitingastaðnum.
21:30 Þjóðleg sýning í Salão Lua
Skemmtiferðaskip 5* hótel – Sigling á Amazon-fljóti
5:30 – 8:00 Léttur morgunverður á þilfari.
6:00 – 6:15 Fylgst með þar sem Svartafljót og Hvítafljót mætast.
7:00 – 8:00 Morgunverður á Kuarup veitingastaðnum.
8:00 Koma í höfninni í Manaus.
8:00 – 8:30 Skila lyklum að káetu og farið í land í Manaus.
Ferðadagur – Manaus – Lissabon
Eftir siglingu kl. 8:00 fá farþegar tækifæri á að skoða sig um á markaði við höfnina og kaupa sér minjagripi. Hópurinn fær síðan frjálsan tíma í Manaus. Farangur verður geymdur á meðan og verður hópurinn síðan sóttur um kl. 16:00, þar sem áætlað flug með TAP er klukkan 18:50 og lending í Lissabon þann 16. ágúst kl. 11:00.
*Ath. flugáætlun gæti breyst.
Ofangreind dagskrá er birt með fyrirvara. Tíu þúsund fet áskilja sér rétt til að breyta dagskrá ef á þarf að halda með tilliti til veðurs og annarra aðstæðna, að sjálfsögðu með heill farþega í fyrirrúmi.
Flug
Farangur
Hótel
Fæði
Akstur
Sigling
Skoðunarferðir
Fararstjórn
Í nafni náttúrunnar
EKKI INNIFALIÐ
https://www.vinnuvernd.is/bolusetningar-ferdalog og
Athugið að listinn er ekki tæmandi og aðeins til viðmiðunar.