Þessi ógleymanlega ferð til Afríku er væntanleg sumarið 2025. Ef þú hefur áhuga á ferðinni sendu okkur þá línu: [email protected]
Afrísk safarí-þrenna sem ekkert ungmenni á aldrinum 18-28 ára ætti að láta framhjá sér fara! Ertu að leita að öðruvísi útskriftarferð úr menntaskóla eða ertu kannski að halda upp á háskólaútskrift með stæl? Þá er þetta rétta ferðin fyrir þig! Stórkostleg ferð á góðu verði. Stórbrotin náttúra, tjaldbúðir í miðri eyðimörk og tilvalin leið til að kynnast nýju fólki! Þessi rúmlega tveggja vikna ferð er ein með öllu og frí áfylling!
Fullkomin ferð fyrir ævintýragjarna náttúruunnendur, þar sem fetað verður í fótspor konungs ljónanna!
Ferðin hefst á frjálsri upplifun í Jóhannesarborg, sem er fjölmennusta borg Suður-Afríku en hún er staðsett við fjallshlíðar sem hafa að geyma fjölda gull- og demantanáma. Borgin býður upp á óþrjótandi afþreyingarmöguleika, sem er einstaklega gaman að upplifa og vera hluti af, þar sem hægt er að finna framandi og einstaka stemningu með t.d. líflegum útimörkuðum, áhugaverðum söfnum og listagalleríum. Þá er hægt að fara í áhugaverðar skoðunarferðir t.d til Soweto-bæjarins, þar sem Nelson Mandela bjó til margra ára áður en hann var handtekinn.
Ferðinni er síðan heitið út í hina mögnuðu náttúru, þar sem fjölbreytt landslag og heillandi dýralíf tekur við og verður fyrst keyrt yfir til Botswana. Þar förum við í ólýsanlega kanósiglingu og safarí- og gönguferðir, þar sem hópurinn kemst í mikið návígi við villtar dýrategundir í fallegum þjóðgörðum landsins.
Því næst verður farið yfir landamæri Botswana og yfir til Zimbabwe, og farið að hinum stórkostlegu Viktoríufossum og fyrir hina hugrökkustu gefst tækifæri til að fara í flúðasiglingu, þyrluflug, risarólu og teygjustökk í námunda við fossana fögru. Þá verður í boði að fara í magnað safarí, þar sem hægt verður að berja augum hin svokölluðu ,,Big five“, þ.e. ljón, hlébarða, nashyrninga, fíla og Afríku-buffalóa.
Ævintýrið heldur svo áfram yfir til Suður-Afríku en þar verða fleiri stórkostlegir þjóðgarðar heimsóttir, þar sem toppnum verður klárlega náð í Kruger-þjóðgarðinum með meiriháttar safarí þar sem boðið verður upp á að sjá öll draumadýrin s.s. gíraffa, fíla, ljón, sebrahesta, flóðhesta í sínu náttúrulega umhverfi.
Rúsínan í pylsuendanum er svo auðvitað framandi tjaldgisting svo upplifunin verði enn sterkari og meiri.
Hér er einfaldlega um sannkallaða póstkortaferð að ræða!
Nánari dagskrá má sjá hér að neðan.
Botswana
Botswana er flatlent land í suðurhluta Afríku, en það á landamæri að Suður-Afríku, Namibíu, Sambíu og Zimbabwe. Landið er tæplega 600 þúsund ferkílómetrar að stærð, sem gerir það svipað stórt og Frakkland. Botswana er eitt af dreifbýlustu löndum heims en þar búa 2,3 milljónir íbúa og um 11% þjóðarinnar býr í höfuðborginni Gaborone. Íbúar landsins tala setsvana og ensku.
Landslagið einkennist af flatlendi og þekur Kalahari-eyðimörkin stærstan hluta landsins. Þá er þar að finna Okavango-ósana, stærstu innanlands árósa veraldar og risastórar saltflatir, Makgadikgadi.
Áður var landið eitt af fátækustu löndum heims en lífsgæði hafa aukist mikið eftir að það fékk sjálfstæði frá Bretlandi árið 1966 en efnahagslífið byggist einkum á nautgriparækt, ferðaþjónustu og námagreftri þar sem demantanámur er víða að finna í landinu.
Botswana er þekkt fyrir fjölbreytt dýralíf eins og fíla, ljón, sebrahesta, gíraffa og þúsundir fuglategunda og hafa stór svæði verið gerð að þjóðgörðum eins og Okavango Delta, þar sem möguleiki er á að kynnast þessu magnaða dýralífi. Þess má geta að þjóðin er fræg fyrir árangur sinn í verndun villts dýralífs og fyrir ríka áherslu á umhverfisvænan ferðaiðnað.
Botswana á sér ríka menningararfleið með hefðum sem byggja m.a. á þjóðlegum athöfnum og hátíðum, þar sem frásagnir, tónlist og dans leika stórt hlutverk. Þá eru Botswana-búar einnig frægir fyrir vefnað, pottagerð og perlusmíði.
Matargerð í Botswana byggist á ýmsum hefðum frá löndum í Suður-Afríku. en vinsælasti maturinn er kjötréttur sem þeir kalla seswaa, sem er ýmist úr lambi, nauti eða geit. Með þessum rétti er yfirleitt borið fram svokallað pap, maísmjöl og morogo, spínat. Með matnum drekka heimamenn svo oftast uppáhalds óáfenga drykkinn sinn, engiferbjór, sem þeir framleiða sjálfir.
Suður-Afríka
Suður-Afríka sem er syðsta land Afríku er rúmlega 1,2 milljón ferkílómetrar að stærð og er því um tvisvar sinnum stærra en Frakkland. Það er með landamæri að Namibíu, Botswana, Zimbabwe, Mósambík og Svasílandi. Þá er landið með strandlengju að Atlantshafi í vestri og Indlandshafi í austri. Í Suður-Afríku búa um 60 milljónir manna og er þar með fjölmennasta land sunnan miðbaugs. Höfuðborgirnar eru þrjár talsins, Höfðaborg, Pretoría og Bloemfontein en stærsta borgin er hins vegar Jóhannesarborg. Í landinu eru töluð mörg tungumál og eru 11 þeirra opinber.
Suður-Afríka er þekkt fyrir heillandi landslag og fjölbreytta náttúru, eins og gresjur, eyðimerkur, fjalllendi og strendur. Í Kruger-þjóðgarðurinn er að finna heimkynni fjölda þekktra villtra dýra eins og ljóna, hlébarða, fíla, buffalo og nashyrninga og hið tignarlega Table-fjall í Höfðaborg er áberandi kennileiti og dregur til sín ferðamenn, þar sem glæsilegt útsýni blasir yfir borgina.
Menning landsins hefur orðið fyrir áhrifum frá öðrum löndum Afríku og eins löndum í Evrópu og Asíu og er ríkt af hefðum sem einkennast af fjölbreyttri tónlist, dansi og öðru listformi og eru heimamenn duglegir að halda ýmiskonar listviðburði og hátíðir. Þá eru þeir þekktir fyrir falleg handverk, perlusmíði, pottagerð, tréútskurð og körfuvefnað.
Matarhefðin í Suður-Afríku hefur einnig litast af blandaðri menningu landsins, m.a. frá frumbyggjum Afríku, Bretlandi og Indlandi. Grillveislur eru vinsælar innan fjölskyldna og vinahópa en þær eru kallaðar braai. Þá einkennist hinn dæmigerði matardiskur af krydduðu kjöti, jafnvel þurrkuðu, maísmjöli og krydduðu grænmeti.
Mikilvægasta tekjulind landsins er námugröftur en bæði gull- og demantanámur fundust í Suður-Afríku á síðari hluta 19. aldar. Þrátt fyrir það telst landið til þróunarríkis.
Zimbabwe
Zimbabwe er rúmlega 390 þúsund ferkílómetrar að stærð og er staðsett sunnarlega í Afríku með landamæri að Botswana, Namibíu, Sambíu og Mósambík. Í landinu búa um 15 milljónir manna og búa flestir í höfuðborginni Harare. Í landinu eru 16 opinber tungumál, þar eru shona, sindebele og enska vinsælust.
Landið hefur mikið aðdráttarafl, þar sem náttúran einkennist af mikilli fegurð og hafa mörg svæði verið gerð að þjóðgörðum eins og Hwange og Mana Pools þjóðgarðarnir, þar sem tækifæri gefast til að fara í safarí og upplifa stórkostlegt villt dýralíf. Þá verður eitt frægasta kennileiti Zimbabwe að teljast til hinna stórfenglegu Viktoríufossa. Þá er að finna gamlar rústir, einstaka steinhnullunga með fornum myndverkum.
Eins og í nágrannalöndum Zimbabwe þá er rík hefð fyrir dansi og tónlist ásamt því að stunda aðrar listir en höggmyndir úr Shona-steinum þykir einstaklega falleg og svo eru þeir þekktir fyrir ríka bókmenntahefð.
Maturinn einkennist af marineruðu grillkjöti, kjötréttum með grænmeti og kartöflustöppu. Þurrkað kjöt þykir líka hið besta snakk.
Dagur 1 – Ferðadagur
Keflavík – Jóhannesarborg
Dagur 2 – Jóhannesarborg
Komudagur – Kynnast ferðafélögum – Kynningarfundur – Næturlíf
Dagur 3 – Jóhannesarborg – Serowe
Keyrsla til Groblersbrug – Landamæri Suður-Afríku og Botswana – Keyrsla frá Martins Drift til Serowe.
Dagur 4 – Serowe – Maun
Safarí um Khama Rhino dýraverndunargarða – Keyrsla frá Serowe til Maun.
Dagur 5 – Maun – Okavango Delta
Ganga og skoðunarferð um Okavango Delta – Kanóferð inn í skógarrjóðri, þar sem hópurinn gistir – Fuglaskoðun – Sungið með heimamönnum
Dagur 6 – Okavango Delta – Gweta
Sólarupprás – Safarí til Maun – Keyrsla frá Maun til Gweta.
Dagur 7 – Gweta – Kasane.
Keyrsla til Kasane
Valfrjáls dagskrá: Bátsferð í Chobe-þjóðgarðinn.
Dagur 8 – Kasane – Viktoríufossar
Landamæri Botswana og Zimbabwe – Hádegisverður á Lusumpuko kvennagarðinum – Viktoríufossarnir
Valfrjáls dagskrá: ,,The Big five“ safarí – rafting – þyrluflug – teygjustökk
Dagur 9 – Viktoríufossar
Frjáls dagur hjá Viktoríufossunum
Dagur 10 – Viktoríufossar – Matobo-þjóðgarðurinn
Keyrsla frá Viktoríufossum í Matobo-þjóðgarðinn
Dagur 11 – Matobo-þjóðgarðurinn
Safarí um þjóðgarðinn – Nashyrningaskoðun.
Dagur 12 – Matobo-þjóðgarðurinn – Tshipise
Keyrsla milli Zimbabwe og Suður Afríku
Valfrjáls dagskrá: Náttúrulaug.
Dagur 13 – Tshipise – Kruger-þjóðgarðurinn
Keyrsla í Kruger-þjóðgarðinn – Dýra- og náttúrusafarí
Dagur 14 – Kruger-þjóðgarðurinn – Greater Kruger Area
Dýrasafarí – Keyrsla til Hazyview – Þjóðlegur kvöldmatur- Þjóðdansar
Dagur 15 – Greater Kruger Area – Jóhannesarborg
Keyrsla til Jóhannesarborgar
Dagur 16 – Ferðadagur
Heimferðadagur.
Mikilvægt er að vera heilsuhraustur og vera tilbúinn að gista við ævintýralegar aðstæður í tjaldi.
Gist verður ýmist á hótelum og í tjöldum á framandi slóðum.
Í sérferðum Tíu þúsund feta fer reyndur íslenskumælandi fararstjóri með í ferðina, hún Tanja Líf Traustadóttir. Hún hefur alist upp við fararstjórn og starfað sem slíkur bæði hérlendis sem og erlendis. Hún mun taka mjög virkan þátt í öllu sem gert verður í ferðinni. Hún mun sjá til þess að farþegar njóti sín til fulls í þessari ævintýralegu draumaferð, þar sem fjör, ævintýri og framandi umhverfi verða sett í fyrsta sæti.
Ferðadagur – Ath. flug til Jóhannesarborgar ekki innifalið.
Frjáls dagur þar sem hópnum gefst tækifæri til að spóka sig um borgina og njóta í valfrjálsri afþreyingu. Seinnipartinn verður boðið upp á kynningarfund og farið lauslega yfir hagnýt atriði er varða komandi daga úti í óbyggðum Afríku. Að fundi loknum er hópnum aftur gefnar frjálsar hendur til að fara út á lífið og kynnast hópnum betur.
Valfrjáls dagskrá:
Eftir morgunmatinn er lagt af stað frá hóteli og keyrt yfir landamæri Suður-Afríku og yfir til Botswana. Aksturinn er langur en í ferðinni gefst kjörið tækifæri til að njóta fjölbreytilegs landslags á leiðinni, allt frá eyðimerkurlandslagi til hrjóstugra skóga í Khama Rhino verndargarðinum. Þá verður stoppað reglulega og hópnum gefið tækifæri til að borða á velvöldum stöðum. Við komuna til Khama Rhino kemur hópurinn sér fyrir og nýtur svo kvöldkyrrðarinnar undir stjörnubjörtum næturhimni Botswana í góðum félagsskap við varðeld áður en lagst verður til hvílu.
Eftir morgunmat hefst ævintýralegt safarí, þar sem tækifæri gefst til að upplifa villt dýralíf í hinum fallegu Khama verndargörðum á opnum blæjubílum. Hver veit nema að við sjáum t.d. nashyrninga! Eftir fjörugt safarí og fullt af myndatökum er svo stigið upp í rútu og keyrt til Maun, fimmtu stærstu borgar Botswana. Á leiðinni er magnað að sjá breytingarnar sem verða smám saman á landslaginu, þar sem gróðursæld verður meira áberandi.
Við byrjum þennan viðburðaríka og skemmtilega dag á morgunmat. Eftir það verður farið í göngu úti í náttúrunni og fetað í fótspor villtra dýra, þar sem við fáum fræðslu um atferli þeirra og hegðun.
Eftir gönguna raðar hópurinn sér niður á hefðbundna mokoro-kanóa, fær árar í hendur og hefur róður úti í friðsælli og einstakri náttúrunni, þar sem leiðin liggur eftir hægrennandi ám innan um sef Okavango Delta, sem eru stærstu árósar heims sem finnast inni í landi. Á leiðinni gefst hópnum tækifæri til að skoða heillandi fuglalíf og njóta kyrrðarinnar sem þarna ríkir. Ekki vitlaust að hafa sjónauka með í för. Þegar komið er á tjaldsvæðið nýtur hópurinn þess að núllstilla og slaka á, syngja með heimamönnum og vera í núinu!
Afríka er þekkt fyrir heimsins fallegustu sólarupprásir og í dag gefst þér tækifæri til að upplifa eina slíka, þar sem sólin baðar umhverfið með heillandi litum sínum! Síðan verður snæddur morgunverður en eftir það verður róið aftur tilbaka á kanóinum um spegilsléttar vatnsrásir árósanna. Hér er vert að draga inn andann og vinna fyrir kyrrðinni. Eftir siglinguna er keyrt aftur til Maun-borgar, þar sem frjáls tími verður gefinn og ekki kannski ekki vitlaust að skella sér í smá sturtu! Síðan er förinni heitið til Gweta þar sem hópurinn mun tjalda undir hinum stórfenglegu baobab-trjám.
Eftir morgunverð verður keyrt frá Gweta til Kasane. Á keyrslunni gefst kostur á að sjá með eigin augum hvað rigningin skiptir miklu mál, þar sem hún vekur til lífins hálfsofandi fiska og rækjur leðju hinna svokölluðu ,,salt pans“. Þarna er einnig búsvæði margra antilópa og því góðar líkur á að sjá þær á sínum heimavelli. Þarna geta líka leynst rándýr og því vissara að vera með augu og eyru opin. Eftir þessa upplifun er tilefni til að skála með hópnum og koma sér fyrir í tjaldbúðum Chobe-þjóðgarðsins. Eftir það gefst hópnum kostur á að fara í valfrjálsa sólsetursiglingu um Chobe-ána og sjá með berum augum fíla, krókódíla og flóðhesta en Chobe er búsvæði stærstu fílahjarðar í suðurhluta Afríku. Bóka þarf í valfrjálsa ferð með góðum fyrirvara.
Fyrir morgunhana þessa viðburðaríka dags stendur til boða að fara í valfrjálst 3 klst. safarí fyrir morgunmatinn þar sem oft er hægt að sjá með berum augum hin svokölluðu “big five”, þ.e. ljón, hlébarða, nashyrninga, fíla og Afríku-buffalóa. Eftir safaríið má svo búast við því að garnirnar verði eitthvað farnar að gaula og því farið beint í morgunmat. Eftir morgunmat er svo tími til kominn að haka við eitt land í viðbót, þar sem farið verður yfir landamærin frá Botswana yfir til Zimbabwe, þar sem hinir stórfenglegu Viktoríufossar leynast, stærstu fossar veraldar. Eftir aksturinn ætlar hópurinn samt að byrja á því að njóta dýrindis þjóðlegs hádegisverðar hjá kvenfélagi Lusumpuko sem mun kenna hvernig á að borða hefðbundinn Zimbabwe mat. Þessi heimsókn er sérstaklega gerð til að styrkja lífsgæði fjölskyldna þeirra. Eftir matinn verður gefinn frjáls tími til að fara að hinum stórfengulegu fossum og fá yfir sig hressandi vatnsúða og fara nær heldur en ykkur hefur dreymt um hingað til. Fyrir þá allra hugrökkustu er í boði alls konar valfrjáls afþreying í námunda við fossana s.s. rafting, þyrluflug eða teygjustökk. Þeir sem eru ekki alveg svo hugrakkir er líka í fínasta lagi að borga sig einfaldlega inn í garðinn og labba um.
Möguleiki á margs konar frábærri valfrjálsri afþreyingu í kringum hina kraftmiklu fossa. Teygjustökk, þar sem stokkið er fram af brú yfir Zambezi-ána umvafinn sterkum vatnsnið fossanna. Zipline þar sem farið verður á fleygiferð um 300 metra leið yfir flúðir Batoka gljúfursins með fossana allt um kring. Teygjuróla, þar sem þú tekur skref fram af brú Viktoríufossanna og lætur þig falla niður um 80 metra inn í Batoka gljúfrið og svo rólar þú fram og aftur nýtur þess að vera til. Einnig er hægt að fara með félaga í rólu. Þyrluflug er einnig frábær leið til að sjá þessa stærstu fossa veraldar úr lofti en það er magnað að sjá hvernig þeir hafa mótað landslagið. Ef heppnin verður með þér gætir þú rekið augun í gíraffa og fíla í þessu magnað umhverfi fossanna. Hægt er að velja um tvær mislangar þyrluferðir. Heilsdags rafting er líka möguleiki fyrir þá sem vilja láta adrenalínið flæða um æðarnar. (Aðeins í boði ef aðstæður leyfa). Þá verður hægt að fara í heilsdagsferð um Chobe-þjóðgarðinn í Botswana, þar sem m.a. verður siglt niður Chobe-ána þar sem hægt verður að berja augum magnað dýralíf við árbakkann. Þá verður farið í jeppasafarí með dýrasérfræðingi, þar sem gott er að hafa augun opin fyrir því að sjá ljón, fíla og buffalóa. (Hér þarf að fá tvöfalt VISA, þegar komið er inn til Zimbabwe)
Nú ef fötin þín eru orðin skítug, getur þú stutt við bakið á heimamönnum og leyft tíu frábærum konum að þvo þvottinn fyrir þig í Princess Laundry Service. Fötin þín verða hrein, þú færð þau afhent á tjaldsvæðið og með þessu styður þú við bakið á þeim, þar sem greiðslur renna til að fjármagna skólagöngu barnanna þeirra.
Dagurinn hefst snemma dags, þar sem borðaður er morgunmatur og síðan er lagt af stað kl. 8:00 frá Viktorífossum og keyrt til Matobo-þjóðgarðsins. Útsýnið á leiðinni er ekki af verri endanum og því auðvelt að gleyma sér á þessum töfrandi slóðum. Eftir keyrsluna tekur við frjáls tími, það sem eftir lifir dags og síðan borðaður kvöldmatur.
Eftir morgunmat er komið að því að fara inn á einstakt svæði, sem á sér fjörtíu þúsund ára sögu en umhverfið einkennist af risastórum graníthnullungum og friðsældin er þvílík að þú veltir hreinlega fyrir þér hvers vegna í ósköpunum þú ættir að fara aftur heim í hið nútímalega samfélag. Safarí dagsins verður bæði fótgangandi og eins í opnum bílum, þar sem markmiðið verður einkum að skoða nashyrninga, en þessi þjóðgarður er þekktur fyrir búsvæði þeirra.
Eftir morgunmat er enn og aftur er komið að því að fara yfir spennandi landamæri en í dag er haldið aftur yfir til Suður-Afríku. Um kvöldið er hópnum gefinn kostur á að baða sig í náttúrulaugunum á tjaldsvæðinu. Hvað gæti verið betra en að slaka á, halla höfðinu aftur og láta vatnið leika um kroppinn og það allt saman undir himni Afríku? Því er auðsvarað, ekkert!
Sagði einhver dýralíf? Heldur betur! Kruger er einn af þessum ógleymanlegu stöðum sem ferðalangar vilja helst heimsækja aftur og aftur. Hér er einfaldlega um að ræða safarí af bestu gerð. En safaríið hefst eftir keyrslu til Kruger. Þar mun hópurinn geta séð öll dýrin sem hann hefur alla tíð dreymt um að sjá, ljón, fíla, sebrahesta, gíraffa og fleiri dýr úti í villtri náttúrunni. Stoppað verður við flóðhestalaugina (Hippo pool), hjá Kruger Tablets og rauðu steinum (Red Rocks). Meira getum við ekki beðið um í þessari mögnuðu dagsferð!
Heilsdags safarí um magnaðan Kruger-þjóðgarðinn. Þar getur hópurinn séð fíla, gíraffa, flóðhesta, ljón, sebrahesta og fleiri mögnuð dýr.
Um kvöldið er svo boðið upp á kvöldskemmtun með tilheyrandi mat og drykk og auðvitað mæta heimamenn og dansa þjóðlega dansa fyrir mannskapinn.
Valfrjálst:
Heilsdags safarí í 4×4 blæjujeppum.
Eftir morgunmat hefst keyrsla frá Hazyview til Jóhannesarborgar. Afrísku slétturnar verða eftir í baksýnisspeglinum og við tekur stærsta borg Suður-Afríku og efnahagsmiðja hennar.
Heimferðardagur – Ath. að flug til Íslands er ekki innifalið.
Gisting:
Fæði:
Akstur
Skoðunarferðir
Fararstjórn
EKKI INNIFALIÐ
https://www.vinnuvernd.is/bolusetningar-ferdalog og
Athugið að listinn er ekki tæmandi og aðeins til viðmiðunar.