Hér er á ferðinni skemmtileg blanda ólíkra menningarheima innan sömu heimsálfu. Við sýnum þér Tenerife eins og þú hefur aldrei áður séð hana og upplifum síðan saman ótrúlegan ævintýraheim Gambíu og Senegal. Ógleymanlegt ævintýri fyrir alla þá sem hafa gaman af náttúrufegurð, ólíkum menningarheimum, magnaðri matarupplifun og sögu ólíkra landa.
Í þessari ævintýralegu ferð fáum við innsýn í daglegt líf Afríkubúa og fáum ómetanlega innsýn í dýralíf Senegal og Gambíu. Við göngum m.a. meðal ljóna, apa og gíraffa ásamt því að strjúka krókódílum!
Nú gefst ferðalöngum einstakt tækifæri til þess að þræða einstakar slóðir á eyjunni fögru og flétta för sína til Tenerife við hin framandi lönd Senegal og Gambíu, þar sem þeir fá að upplifa einstaka menningu, sögu og náttúru.
Tenerife
Tenerife er stærsta og fjölsóttasta eyjan af þeim átta eyjum sem tilheyra Kanaríeyjunum. Hún er staðsett mitt á milli eyjanna Gran Canaria, La Gomera og La Palma. Tenerife er eldfjallaeyja sem talin er að hafi myndast fyrir 8 milljónum ára.
Hún er í u.þ.b. 300 km fjarlægð frá meginlandi Afríku og í u.þ.b. 1300 km frá meginlandi Spánar. Eyjan er 2.034 ferkílómetrar að flatarmáli og er eins og þríhyrningur í laginu og fer hún hækkandi eftir því sem nær dregur miðju og nær hámarki með Pico del Teide sem er hæsta fjall Spánar í 3.718 m hæð yfir sjávarmáli. Santa Cruz er höfuðborgin þar sem búa um 250.000 íbúar en á eyjunni búa tæplega milljón manns.
Senegal
Senegal er staðsett við Atlantshafið á vesturströnd Afríku í um 1550 kílómetrum sunnan við Kanaríeyjar. Landið er ekki stórt en þó tæplega tvöfalt stærra en Ísland eða rúmlega 196 þúsund ferkílómetrar að stærð og þar búa um 16 milljónir manna og þykja íbúarnir afar gestrisnir.
Höfuðborgin heitir Dakar og er hún á Grænhöfðaskaganum, en þar er að finna vestasta odda Afríku, Pointe des Almadies. Frakkar lögðu landið undir sig á 19. öld og réðu þar ríkjum allt til ársins 1960 þegar landið hlaut sjálfstæði. Franskra áhrifa gætir því víða í menningu og sögu landsins og er franska hið opinbera tungumál í Senegal.
Landið býr yfir fallegri náttúru en einnig lifandi menningu og sögu, þar sem m.a. er að finna fróðleg listasöfn og skemmtilegt næturlíf, þar sem hægt er að upplifa ríka tónlistarhefð innfæddra. Í Senegal er að finna sex þjóðgarða og sjö staði sem hafa verið settir á heimsminjaskrá UNESCO.
Gambía
Gambía er bæði minnsta og fámennasta Afríkuríkið en landið er rétt rúmlega 10.000 ferkílómetrar að stærð og er ekki nema 48,2 km á breiddina þar sem það er breiðast en landið er bæði langt og mjótt umhverfis Gambíu-fljótið. Gambía stendur við Atlantshafið og er umkringt Senegal. Höfuðborg landsins er Banjul.
Landið er þekkt fyrir vinalega íbúa, sem telja rúmlega 2 milljónir manna. Náttúran er fjölbreytt og býr landið yfir ríkum menningararfi. Gambía var upphaflega portúgölsk nýlenda en snemma á 17. öld lögðu Bretar landið undir sig. Landið fékk fullt sjálfstæði árið 1965 og varð hluti af Breska samveldinu og er enska hið opinbera tungumál. Talið er að um þrjár milljónir þræla hafi verið fluttir úr landinu á tímum þrælaverslunarinnar. Efnahagur Gambíu byggist einkum á fiskveiðum, landbúnaði og ferðaþjónustu.
Náttúran einkennist af ströndum við Atlantshafið og skógum inn til landsins. Við Gambíufljótið standa þorpin með úrval af mörkuðum og veiðimenn eru áberandi. Dýralífið er fjölskrúðugt og mega ferðamenn með banana búast við hverju sem er frá öpum heimalandsins.
Fimmtudagurinn 6. mars – Ferðadagur
Föstudagurinn 7. mars – Bæjarferð í Santa Cruz
Laugardagurinn 8. mars – Norðrið
Sunnudagurinn 9. mars– Frjáls dagur
Mánudagurinn 10. mars – Frjáls dagur – Flug til Senegal að kvöldlagi
Þriðjudagurinn 11. mars – Bæjarferð í Dakar – Þrælaeyjan
Miðvikudagurinn 12. mars – Fathala dýrasafarí – Gambíu-fljótið – Banjul
Fimmtudagurinn 13. mars – Þorp – markaðir – skólaheimsókn – Tanje-safnið – Paradísarströndin – krókódílar – apaskógur
Föstudagurinn 14. mars – Æskustöðvar Kunta Kinteh – Sigling – Skeljaeyjan – Næturflug til Tenerife
Laugardagurinn 15. mars – Frjáls dagur
Sunnudagurinn 16. mars – Frjáls dagur
Mánudagurinn 17. mars – Vín & matur – fjallaævintýri
Þriðjudagurinn 18. mars – Ferðadagur
Í sumum skoðunarferðunum eru göngutúrar en ekki um neitt uppstig að ræða. Þegar ekið er um fjalllendi Anaga-skagans á Tenerife má stundum finna bratta á aðra höndina. Menning Gambíu og Senegal er frábrugðin því sem við eigum að venjast og áreiti sölumanna er talsvert. Bílakostur í Gambíu og Senegal er ekki 5*, keyrt í gömlum hertrukkum.
Gist er á 4* hótelinu AF Valle Orotava með hálfu fæði.
Hótelið er vel staðsett í Puerto de la Cruz, einum af stærri strandbæjum eyjarinnar fögru. Sameignarsvæði hótelsins er fallegt og innréttað í notalegum stíl. Móttakan er opin allan sólarhringinn. Herbergin eru björt, snyrtileg og vel útbúin með flatskjá, minibar og þráðlausu interneti. Á hótelinu er sundlaugasvæði með tveimur sundlaugum og sólbekkjum. Þar er einnig heilsulind og líkamsræktaraðstaða. Veitingastaður og hótelbar eru með snyrtilegasta móti.
Öll herbergi hótelsins eru innréttuð með hlýlegum litum og búin fyrsta flokks húsbúnaði.
Glæsileg heilsulind hótelsins býður meðal annars uppá sauna, blautgufu og jacuzzi.
Í Senegal verður gist á snyrtilegu 3-4* hóteli í Dakar og fást upplýsingar um það þegar nær dregur brottför. Í Gambíu gistum við á ljómandi fínu strandhóteli sem fær góða dóma, Senegambia Beach hotel. Þar er allt til alls og boðið upp á fullt fæði þá daga sem við dveljum þar. Snyrtileg sundlaugaraðstaða og einkaströnd býðst gestum hótelsins.
Þegar ævintýrinu í Afríku lýkur njótum við lífsins á 5* hóteli á vinsælu strandsvæði í suðrinu, Iberostar Sabila. Það er ákaflega vel staðsett innan við 500 metra frá El Duque dekurströndinni. Þar verðum við í hálfu fæði, morgunmat og kvöldverði.
Öll aðstaða hótelsins er til mikillar fyrirmyndar, herbergin falleg og vel útbúin með loftkælingu. Þar er ljúf heilsulind með gufubaði, nuddpottum og tyrknesku baði. Þar er boðið upp á ýmsar nudd- og fegrunarmeðferðir. Á hótelinu eru þrjár stórar sundlaugar með glæsilegri aðstöðu fyrir sóldýrkendur ásamt suðrænum görðum og þaksundlaug fyrir 18+ með fallegu útsýni yfir strandlengjuna.
Þá er gjaldfrjáls líkamsræktarstöð og flottir íþróttavellir fyrir t.d. minigolf og tennisiðkun. Þar er stór hlaðborðsveitingastaður, tveir à la carte-veitingastaðir og þrír barir. Boðið er upp á skemmtidagskrá með lifandi sýningum.
Vinsamlega athugið að ljósmyndir af gististöðum, sem birtar eru á heimasíðu Tíu þúsund feta, eru fengnar frá gististöðunum. Þær eru aðeins til þess að gefa hugmynd um útlit þeirra. Tíu þúsund fet bera ekki ábyrgð á því ef eitthvað hefur breyst á gististöðunum frá því að ljósmyndir voru teknar. Tíu þúsund fet stjórna ekki staðsetningu farþega innan gististaða. Athugið einnig að gististaðir geta breyst en þá er ávallt boðið upp á sambærilega gististaði eða betri.
Í þessari ævintýraþrennu Tíu þúsund feta fara þaulreyndir íslenskumælandi fararstjórar með í ferðirnar, þau Rún Kormáksdóttir og Trausti Hafsteinsson. Þau störfuðu í rúm 12 ár sem fararstjórar á Tenerife og eru því viskubrunnar um sögu og náttúru eyjarinnar. Þá hafa þau einnig farið með hópa í skoðunarferðir til Gambíu.
Ferðadagur
Flogið er frá Keflavíkurflugvelli með flugfélaginu Play kl. 9:10 og lent á Reina Sofia flugvellinum á suðurhluta Tenerife kl. 14:50. Rútur bíða farþega fyrir utan flugstöðvarbygginguna en þaðan er keyrt í um 40 mín. til höfuðborgarinnar Santa Cruz þar sem dvalið verður á fimm stjörnu hótelinu Mencey. Hótelið er í göngufjarlægð frá líflegum miðbæ borgarinnar, þar sem tilvalið er að fá sér góðan kvöldverð á velvöldu veitingahúsi.
Bæjarferð í Santa Cruz
Eftir morgunverð hittist hópurinn klukkan 10 í gestamóttöku hótelsins. Þaðan gengur hann saman í einn af fallegri almenningsgörðum Tenerife og þaðan niður í miðbæ Santa Cruz, þar sem meðal annars er að finna skemmtilega göngugötu fulla af verslunum, veitingastöðum og kaffihúsum. Gengið verður að hinu stóra torgi, Plaza de España, farið yfir sögu frumbyggjanna og komu landvinningamanna til eyjarinnar en einnig verður bent á hvar hægt er að gera góð kaup á útimörkuðum og verslunarkjörnum ásamt því hvar er að finna skemmtileg söfn, kirkjur og hina glæsilegu tónlistarhöll. Í lok bæjarferðarinnar er tilvalið að setjast niður á velvöldum veitingastað og fá sér léttan hádegisverð og virða fyrir sér mannlífið. Fararstjórar verða þar til viðtals.
Bæjarferðin er góð byrjun á ánægjulegri dvöl á eyjunni fögru og höfuðborg hennar er góð leið til þess að átta sig á því hvernig landið liggur og hvar hlutina er að finna.
Frjáls tími til að njóta lífsins!
Norðrið – Anaga-skaginn kl. 9-17
Meiriháttar heilsdagsferð þar sem haldið er m.a. á elsta fjallgarð Tenerife, þar sem við ferðumst beinlínis aftur í tímann því þar búa sumir heimamenn enn í hellum. Ekið er beinustu leið til hinnar gömlu háskólaborgar, La Laguna, sem Spánverjar reistu eftir að hafa náð eyjunni úr höndum frumbyggjanna dularfullu á 16. öld. Gamli borgarhlutinn er einstaklega fallegur enda á heimsminjaskrá UNESCO, þar verður tekinn léttur göngutúr og farið yfir sögu hans.
Frá háskólaborginni La Laguna höldum við á Anaga-skagann sem er elsti hluti eyjarinnar sem myndaðist við neðansjávareldgos. Þar er ótrúleg náttúrufegurð og mikil gróðursæld en farið er í gegnum hina miklu Mercedez-lárviðarskóga og haldið þaðan í gamla hellabyggð sem staðsett er í bröttum fjallshlíðum í um 600 m yfir sjávarmáli og þar verður borðaður hádegisverður á hellaveitingastað. Eftir hádegisverðinn margrétta heimsækjum við afskekktustu byggð eyjarinnar, Taganana-bæinn, sem lengi vel var aðeins aðgengilegur frá sjó. Að endingu skellum við okkur á hina glæsilegu sandströnd höfuðborgarbúa og keyrum svo beinustu leið heim á hótel. Ógleymanleg ferð um dulmagnaðar slóðir og í stórkostlegri náttúrufegurð!
Frjáls dagur
Frjáls dagur
Um hádegi þurfa farþegar að skrá sig út af hóteli og skilja farangur eftir í gestamóttökunni. Farþegar verða sóttir kl. 17:30 og keyrðir á flugvöllinn Reina Sofia og geta þeir fram að því notið þess að vera í sundlaugargarðinum, farið á Teresitas-ströndina eða notið alls þess sem Santa Cruz hefur upp á að bjóða. Flogið verður til Senegal kl. 21:10 og áætluð lending er kl. 01:35 og gist á hóteli í Dakar.
Bæjarferð í Dakar – Þrælaeyjan
Eftir morgunverð á hóteli byrjum við daginn á því að fara niður á höfnina í Dakar og siglum út í Þrælaeyjuna svokölluðu, Gorée-eyju. Eftir að hafa fengið leiðsögn um eyjuna og fræðslu um þrælatímabilið í Senegal siglum við aftur í land. Eftir hádegi tökum við létta bæjarferð um höfuðborgina og sjáum allt það markverðasta sem þar er að finna. Að lokum tekur við rólegt kvöld á hóteli.
Fathala dýrasafarí – Gambíu-fljótið – Banjul
Að morgni er lagt af stað áleiðis til Gambíu en á leiðinni er komið við í Fathala dýrasafaríinu. Eftir heimsóknina og léttan hádegisverð förum við yfir landamærin við Barra og siglum yfir Gambíu-fljótið með ferju til Banjul, höfuðborgar Gambíu. Þar höldum við á hótelið til að njóta kvöldverðar. Eftir matinn förum við á rúntinn um miðborgina þar sem finna má iðandi næturlíf höfuðborgarinnar áður en gengið verður til náða.
Þorp – markaðir – skólaheimsókn – Tanje-safnið – Paradísarströndin – krókódílar – apaskógur
Eftir morgunverð á hótelinu leggjum við í hann á 4×4 hertrukkum til suðurs þar sem við heimsækjum þorp heimamanna, innlenda markaði, skóla, Tanje-safnið og Tanje-fiskimannaþorpið ásamt því að bragða á pálmavíni. Þá býðst okkur notalegur hádegisverður á Paradísarströndinni þar sem afrískt hlaðborð verður útbúið handa okkur.
Á leiðinni heimsækjum við líka krókódílalaugina og apaskóginn. Þaðan höldum við heim á hótelið til að undirbúa okkur fyrir kvöldverðinn sem verður á notalegum strandbar þar sem grillveisla verður haldin og þjóðleg skemmtiatriði fara fram. Komið verður aftur á hótelið fyrir miðnætti.
Æskustöðvar Kunta Kinteh – Sigling – Skeljaeyjan
Eftir notalegan morgunverð höldum við aftur til Senegal með ferjusiglingu yfir að landamærunum. Nærri landamærunum ökum við til Albreda og Jurrereh til að heimsækja æskustöðvar Kunta Kinteh, þrælsins sem var fluttur frá Gambíu til Ameríku. Þaðan býðst okkur einnig létt sigling út að hinni sögufrægu Kunta Kinteh eyju, áður þekkt undir nafninu St. James eyjan.
Næst tekur við hádegismatur og þaðan höldum við áfram í Senegal og komum þessu næst við á “Skeljaeyjunni” Joal Fadiuth. Að þeirri heimsókn lokinni liggur leið okkar út á Dakar-flugvöll þaðan sem við eigum flug aftur til Tenerife að næturlagi eða kl. 2:30. Lent er að morgni dags kl. 8:55 á Reina Sofia flugvellinum og þaðan verður ekið beinustu leið heim á hótel á Costa Adeje strandsvæðinu, þar sem gist verður á 5* hóteli í góðu yfirlæti.
Frjáls dagur
Tilvalið að hvílast eftir viðburðaríkt ferðalag og njóta þess sem hótelið hefur upp á að bjóða. Stutt er á fallegar strendur og fjölbreytta afþreyingu.
Frjáls dagur
Möguleiki á valfrjálsum dagskrárliðum.
Fjallaævintýri með grillveislu & vínsmökkun
Að morgni verður haldið í fjallaævintýri með áherslu á vín og matarmenningu eyjarskeggja. El Teide hefur haft gífurlegt aðdráttarafl fyrir eyjuna í gegnum tíðina. Þar er fjölsóttasti þjóðgarður Spánar enda landslagið þar stórbrotið. Þangað höldum við í ævintýralega heilsdagsferð. Við byrjum á að virða fyrir okkur tvö eldfjöll, El Chinyero og El Pico Viejo, höldum síðan leið okkar áfram um hinn undurfagra þjóðgarð Canadas del Teide og að hinu tignarlega eldfjalli El Teide, hæsta fjalli Spánar, 3.718 m hátt.
Þangað höldum við upp að kláfnum þar sem ferðamönnum gefst tækifæri á að taka kláf upp að rótum toppsins. Ferð í kláf er valfrjáls og kostar aukalega. Eftir það verða gerð tvö áhugaverð myndastopp við mikil náttúruundur á þessum slóðum. Þá lækkum við flugið og föðmum hæsta furutré eyjarinnar en því næst keyrum við í gegnum hæsta byggða ból eyjarinnar, Vilaflor, sem er í um 1.500 m hæð yfir sjávarmáli. Síðan bíður okkar veislumáltíð hjá vínbónda sem tekur vel á móti okkur. Þar smökkum við á ostum og vínframleiðslu heimamanna, gæðum okkur á ljúffengum grillmat, skolum honum niður með viðeigandi drykkjum, skoðum vínakurinn, kynnum okkur vínframleiðsluna og njótum tilverunnar saman. Þetta er ferð sem allir verða að upplifa!
Ferðadagur
Farþegar skrá sig út af hóteli um hádegi og geta geymt farangur þar til þeir verða sóttir klukkan 12:30. Þá verður ekið út á Reina Sofia flugvöllinn sem er í 15 mín. akstursfjarlægð frá hóteli. Áætlað flug til Íslands er klukkan 15:50 og lending í Keflavík kl. 21:35.
Ofangreind dagskrá er birt með fyrirvara. Tíu þúsund fet áskilja sér rétt til að breyta dagskrá ef á þarf að halda með tilliti til veðurs og annarra aðstæðna, að sjálfsögðu með heill farþega í fyrirrúmi.
Flug:
Farangur:
Hótel:
Fæði:
Fararstjórn
Akstur
Sigling
Skoðunarferðir
Í nafni náttúrunnar
EKKI INNIFALIÐ
Athugið að þessi listi er ekki tæmandi aðeins til viðmiðunar.