Ævintýraleg ferð á framandi slóðir Víetnam, þar sem hver perlan á fætur annarri verður skoðuð í dásamlegu umhverfi. Hér er einfaldlega á ferðinni fullkomin ferð fyrir fólk með ævintýraþrá, þar sem áhersla verður lögð á hjólreiðar, göngur og kayak-róður á fallegustu slóðum Víetnam.
Ferðalagið hefst í stærstu borg Víetnam, Ho Chi Minh sem áður var kölluð Saigon. Þar fá ferðalangar tækifæri til þess að hvílast eftir langt ferðalag áður en þeir byrja að upplifa hið ævintýralega og framandi land, Víetnam. En hér er um að ræða ferð sem leggur áherslu á að upplifa landið með skemmtilegri útivist og komast þannig í meiri og betri tengingu við menningu, sögu og náttúru landsins.
Um er að ræða þægilega hreyfiferð, þar sem verður hjólað og gengið um friðsælar sveitir Víetnam, innan um hrísgrjónaakra, gróðursæl fjöll og lítil sveitaþorp. Við heimsækjum heimamenn, lærum að búa til núðlur, förum ofan í gömul göng frá tímum Víetnamstríðsins og gistum í heimahúsi. Þá förum við í magnaða siglingu um hinn fagra Halong flóa og fáum að sigla á kayak innan um þúsundir magnaðra kalksteinsklettaeyja og heimsækja fagra hella.
Ferðast verður á milli margra sögufrægra borga og bæja, m.a. með rútu-, lestar- og flugferð, sem sagt fullt af fjöri og þetta er aðeins brot af því besta sem ferðin hefur upp á að bjóða.
Kynntu þér málið og lestu nánari dagskrá ferðarinnar!
Sannkölluð ævintýraferð!
Víetnam á sér forna sögu og ríka menningararfleifð, sem er samofin af áhrifum úr ýmsum áttum, frá frumbyggjum landsins, kínverskri stjórn og frönsku landnámi og annarra utanaðkomandi þátta.
Menning og listir eru ríkur þáttur í lífi heimamanna, þar sem þeir eru þekktir fyrir að leika á framandi hljóðfæri, búa til falleg litrík málverk á tré sem þeir hafa skorið út með einstakri tækni og þá eru þeir einnig frægir fyrir að mála fagrar myndir á viðkvæmt silki með náttúrulegum litum. Þá hafa þeir gaman af alls kyns dansi m.a. konunglegum dansi og hinum svokallaða hattadansi en með tjáningu sinni með öllum þessum listformum vilja listamennirnir lýsa lífi þeirra sem búa í landinu og á sama tíma lífga upp á menningu landsins.
Lífið í borgunum einkennist af iðandi mannlífi, þar sem öllu ægir saman, bílum, mótorhjólum, reiðhjólum og gangandi vegfarendum. Við allar götur má finna raðir af matarbásum, sem selja dýrindis götubita, núðlusúpur, samlokur, núðlurétti og brakandi vorrúllur. Þá eru markaðir á hverju strái, þar sem hægt er að kaupa allt milli himins og jarðar, allt frá fersku grænmeti til handverks og raftækja. Þá eru hefðbundnir verslunarkjarnar einnig vinsælir.
Í borgunum er einnig hægt að gera sér margt til skemmtunar eins og að skella sér út á næturlífið sem býður upp á fjölbreytta bari og næturklúbba, tónleika og leik- og danssýningar. Þá er nóg af menningarlegri afþreyingu, þar sem hægt er að skoða forn söfn, musteri og listagallerí.
Víetnamar gæta þess ávallt að bjóða líka upp á falleg græn svæði innan borganna svo fólk, bæði heimamenn og ferðamenn sem sækja landið heim geti tekið sér hlé frá skarkala borgarlífsins, slakað á, stundað íþróttir og notið þess að endurnæra líkama og sál.
Þá er landið þekkt fyrir ótrúlega náttúrufegurð, gróskumikil klettafjöll, hitabeltisskóga, fallega fossa, fljót og stóra hrísgrjónaakra ásamt því að skarta töfrandi ströndum og víkum.
Nokkrar staðreyndir um Víetnam!
Í nóvember er hitastigið í norðurhluta Víetnam um 19°C en á suðurshlutanum frá 22°C til 28°C.
Dagur 1
Ferðadagur – ath. flug frá Íslandi til Víetnam ekki innifalið.
Dagur 2 – Kynningarfundur í Ho Chi Minh/Saigon – Frjáls dagur
Velkomin til Víetnam!
Dagur 3 – Frjáls dagur
Dagur 4 – Ho Chi Minh – Hoi An
Hjólreiðatúr og heimsókn í Cu Chi göngin. Flogið til Hoi An.
Dagur 5 – Hoi An
Hjólreiðatúr og núðlugerð. Möguleiki á að fara til klæðskera og ströndina á eftir!
Dagur 6 – Hoi An – Huế
Rútuferð um Hai Van leiðina.
Dagur 7 – Huế – Hanoi
Hjólreiðatúr og grafreitur Tu Duc keisara. Lestarferð til Hanoi.
Dagur 8 – Hanoi – Mai Châu
Fjallganga í Mai Châu og heimsókn til heimamanna.
Dagur 9 – Mai Châu – Hanoi
Hjólreiðatúr í útjaðri Hanoi-borgar. Möguleiki á vatnsbrúðusýningu og áhugaverðum göngutúr.
Dagur 10 – Hanoi – Halong
Sigling á ,,junk boat” í Halong flóa. Kayak-róður, hellar og þúsundir klettaeyja. Sjávarréttarveisla og slökun undir stjörnubjörtum himni.
Dagur 11 – Ha Long – Hanoi
Áframhaldandi sigling á Ha Long flóa. Frjáls dagur í Hanoi, þar sem möguleiki er á í frjálsum tíma til að skoða Hoa Lo fangelsið sem segir átakanlega sögu frá Víetnam-stríðinu.
Dagur 12 – Ferðadagur
Flogið frá Hanoi til Íslands – Ath. flug frá Víetnam til Íslands er ekki innifalið.
Í ferðinni er mikilvægt að vera heilsuhraustur og vera reiðubúinn til að takast á við líkamlega hreyfingu, göngur, hjólreiðar og róður. Ekki er um að ræða erfiða hreyfingu. Ferð niður í göngin gæti reynst erfið þeim sem eru með innilokunarkennd. Gisting er frumstæð í Mai Châu og í lestarferð er sofið í fjögurra manna kátetum og því vænlegt að taka með eyrnatappa. Þá er sofið um borð í báti á Halong-flóa.
Gist verður á framandi og skemmtilegum stöðum en athugið að gististaðirnir sem eru nefndir hér að neðan gætu breyst og þá í eitthvað sambærilegt.
Í Ho Chi Minh verður gist á A25 hotel í tvær nætur með morgunmat inniföldum. Hótelið er einstaklega vel staðsett í aðeins 1,5 km fjarlægð frá miðborginni og í um 20 mín. akstursfjarlægð frá flugvelli. Herbergin eru snyrtileg og í þeim er frí Wi-Fi tenging og möguleiki á að geyma verðmæti í öryggishólfi. Gestamóttaka er opin allan sólarhringinn.
Í Hoi An verður gist á Uptown Hoi An hotel í tvær nætur með morgunmat inniföldum. Hótelið er vel staðsett en hinn forni borgarhluti er aðeins í 650 m fjarlægð frá hóteli og aðeins 30 km á flugvöllinn. Herbergin eru snyrtileg með loftkælingu og í þeim er frí Wi-Fi tenging og möguleiki á að geyma verðmæti í öryggishólfi. Gestamóttaka er opin allan sólarhringinn.
Í hinn fornu höfuðborg Víetnam Huế verður gist á Asia hotel í eina nótt með morgunmat inniföldum. Hótelið er vel staðsett í miðbæ borgarinnar og því stutt að fara að sögufrægum stöðum og á Dong Ba markaðinn. Herbergin eru vel útbúin og snyrtileg með loftkælingu og í þeim er frí Wi-Fi tenging og möguleiki á að geyma verðmæti í öryggishólfi. Gestamóttaka er opin allan sólarhringinn.
Á leið okkar frá Huế til Hanoi verður gist í eina nótt í næturlest, morgunmat inniföldum en lestarferðin tekur um 14-15 klst. Herbergin eru útbúin tveimur tveggja manna kojum og með loftkælingu. Engin Wi-Fi tenging. Pláss er fyrir farangur en tvö salerni er að finna við sitthvorn ganginn á lestarvagninum. Athugið að hér er ekki um neinn lúxus að ræða.
Frá Hanoi höldum við til Mai Châu, þar sem við fáum að kynnast gestrisni heimamanna og gista í eina nótt í notalegum og snyrtilegum híbýlum þeirra morgunmat inniföldum. Sofið er á dýnum og því um afar frumstæða og framandi gistingu að ræða. Bara gaman!
Á Halong-flóa verður gist um borð í bátnum sem siglir með okkur um hinn fagra flóa. Heimamenn kalla þetta einfaldlega junk boats, það segir samt líklega ekki allt sem segja þarf!
Í Hanoi borg gistum við á Thien Thai hotel í tvær nætur, þó ekki í röð, með morgunmat inniföldum. Hótelið er vel staðsett í rólegri hliðargötu og rétt hjá gamla hluta borgarinnar. Hótelið er byggt í frönskum stíl og hefur nýlega verið tekið í gegn. Herbergin eru vel útbúin og snyrtileg með loftkælingu og í þeim er frí Wi-Fi tenging og möguleiki á að geyma verðmæti í öryggishólfi. Gestamóttaka er opin allan sólarhringinn.
Vinsamlega athugið að ljósmyndir af gististöðum, sem birtar eru á heimasíðu Tíu þúsund feta, eru fengnar frá gististöðunum. Þær eru aðeins til þess að gefa hugmynd um útlit þeirra. Tíu þúsund fet bera ekki ábyrgð á því ef eitthvað hefur breyst á gististöðunum frá því að ljósmyndir voru teknar. Tíu þúsund fet stjórna ekki staðsetningu farþega innan gististaða. Athugið einnig að gististaðir geta breyst en þá er ávallt boðið upp á sambærilega gististaði eða betri.
Athugið að gisting í einbýli er ekki í boði í lestarferð, heimagistingu og á báti.
Í þessari ævintýraþrennu Tíu þúsund feta fara þaulreyndir íslenskumælandi fararstjórar með í ferðina, þau Rún Kormáksdóttir og Trausti Hafsteinsson. Þau hafa starfað við margs konar ferðaþjónustu í 25 ár ásamt því að ferðast um víða veröld. Þau munu sjá til þess að farþegar upplifi og njóti sín til fulls í þessari draumaferð um Víetnam, þar sem fræðsla og umfram allt skemmtileg upplifun og útivist verður sett í forgang.
Ferðadagur
Flogið frá Íslandi til Ho Chi Minh – ATH. FLUG ER EKKI INNIFALIÐ Í VERÐI FERÐARINNAR.
Kynningarfundur – frjáls dagur
Velkomin til Víetnam! Kynningarfundur á hóteli kl. 11 og farið yfir dagskrá næstu daga. Frjáls dagur, þar sem farþegar geta notið þess að hvílast á hóteli eftir langt ferðalag eða til að byrja fjörið og þræða stræti og upplifa iðandi mannlíf stærstu borgar Víetnam, Ho Chi Minh/Saigon og gæða sér á fyrsta núðlurétti ferðarinnar.
Frjáls dagur
Ho Chi Minh – Hoi An
Eftir morgunverð verður farið í hjólreiðatúr um friðsælar sveitir Víetnam, þar sem hjólað verður í gegnum plantekrur gúmmítrjáa og lítil sveitaþorp, þar sem heimamenn eru með hrísgrjónaakra og faúm við að fylgjast með hvernig hrísgrjónapappír er búinn til. Hjólreiðatúrnum lýkur svo við Cu Chi göngin þar sem hópurinn fer út fyrir þægindarammann og skríður ofan í þessi merkilegu göng með leiðsögn. En göngin eru dæmi um frábæra herkænsku heimamanna í baráttu sinni gegn Ameríkönum í Víetnamstríðinu. Þarna földu þeir vopn og hlúðu að særðum. Flogið seinnipartinn til Hoi An og hópurinn kemur sér fyrir á hóteli.
Hoi An
Hjólað í friðsælli náttúru eftir þröngum sveitavegum á milli lítilla þorpa og risastórra hrísgrjónaakra í kringum Hoi An. Á leiðinni kynnumst við því hvernig á að búa til ólíkar tegundir af núðlum en á meðan núðlugerðinni stendur fá hópmeðlimir það hlutverk að tala ensku við heimamenn til að styrkja þekkingu þeirra á málinu. Þegar hjólreiðatúrnum lýkur er frjáls tími, þá er tilvalið að taka sér göngutúr innan um þröng og hlykkjótt stræti gamla bæjarins í Hoi An, virða fyrir sér forn heimkynni íbúanna, kínversk samkomuhús og vel varðveitt musteri og koma jafnvel við hjá klæðskera og láta sauma á sig vel sniðin föt. Þá er hægt að skella sér á matreiðslunámskeið, fara með heimamönnum á markaðinn til að kaupa hráefnið og læra svo að elda dæmigerða víetnamska máltíð. Síðan má líka bara flatmaga á fallegri strönd Hoi An og njóta lífsins!
Hoi An – Huế
Eftir morgunmat kveðjum við Hoi An og höldum út í sveit til hinnar fornu borgar Huế. Ekið verður eftir hinni svokölluðu Hai Van Pass leið, sem einkennist af gróðursælu fjalllendi með útsýni yfir fallegar strendur Víetnam.
Huế – Hanoi
Hjólreiðatúr um gömlu keisaraborgina Huế, sem hefur að geyma marga merka staði sem sumir hafa verið settir á heimsminjaskrá UNESCO. Meðal þeirra staða sem skoðaðir verða eru hinir þekktu varnarmúrar og gröf keisarans Tu Duc. Í lok dags verður keyrt á lestarstöðina, þar sem hoppað verður um borð í vel útbúinni næturlest, en káetur hennar eru búnar tveimur kojum með uppábúnum rúmum fyrir fjóra. Hægt er að læsa þeim innan frá og geyma farangur. Í lestinni er loftkæling og vatnssalerni og möguleiki á að kaupa sér mat og drykk. Við mælum þó með að farþegar taki með sér mat fyrir lestarferðina.
Hanoi – Mai Châu
Frá lestarstöðinni verður ekið út í fagrar sveitir Norður-Víetnam, þar sem góð fjallganga verður tekin í friðsælli og heillandi náttúru Mai Châu og gestrisni heimamanna notið bæði í mat og drykk. En gengið verður í gegnum dæmigerð þorp og framhjá stórum hrísgrjónaökrum, sem eru umkringdir fjöllum þangað sem leið okkar liggur. Rúsínan í pylsuendanum verður svo að kynnast nýjum víetnömskum vinum, komast í snertingu við hefðbundið líf þeirra, fá heimagerðar máltíðir og sofa á dýnum á heimilum þeirra. Athugið að hér er um notalega gistingu að ræða, þar sem grunnþörfum er fullnægt, þar sem gestir fá dýnur, moskítónet og teppi, enginn íburður.
Mai Châu – Hanoi
Eftir morgunverð er ekið aftur til Hanoi-borgar. Þar tekur við 25 km hjólareiðatúr í rólegum útjaðri borgarinnar. Eftir hjólreiðatúrinn er frjáls tími til að njóta þessarar skemmtilegu borgar, en gaman er að rölta um stræti gamla bæjarhluta hennar, sem minna á völundarhús full af alls konar varningi og iðandi mannlífi og veitir slíkur göngutúr góða innsýn inn í mannlífið í borginni. Ef þreyta kallar á, er auðvelt að grípa sér plaststól á næsta götuhorni og gæða sér á götubita og skola honum niður með heimabruggi. Við mælum líka með skemmtilegum vatnabrúðusýningum, sem Hanoi-búar hafa verið þekktir fyrir í áratugi, en þessar listrænu brúður eru látnar dansa á vatni við fallega lifandi tónlist. Einnig er val um að fara í matarferð með leiðsögn um gömlu borgina en í þeirri ferð er farið á markaði og þröng baksund og kynnst heimamönnum og bragðað á götubita þeirra heimamanna eins og nem ran og banh goi. Þá verður boðið upp á víetnamskan bjór og endað á hefðbundnum veitingastað.
Hanoi – Ha Long
Eftir morgunverð verður keyrt til hins gullfallega Ha Long flóa. Þar tekur við afslöppunarferð um borð á báti sem heimamenn kalla junk boats. Siglt verður innan um þúsundir heillandi klettaeyja úr kalksteini. Um borð í bátnum verður boðið upp á sjávarréttaveislu í hádegi og eftir það verður farið í einstaka kayak-siglingu, þar sem Halong Bay verður skoðuð út frá öðru sjónarhorni, siglt inn í hella og undir þessum heillandi klettaeyjum. Eftir kayak-róður verður snæddur kvöldverður og þegar rökkva tekur verður hægt að taka drykk og slökun undir stjörnubjörtum himni innan um þessar merkilegu eyjaklasa. Gist verður um borð í bátnum í þessu friðsæla og töfrandi umhverfi.
Ha Long – Hanoi
Eftir morgunmat gefst hópnum tækifæri til að njóta áfram fagurs útsýnis yfir flóann á meðan siglt er aftur í land. Að hádegismat loknum verður keyrt aftur til Hanoi, þar sem frjáls tími verður gefinn til að upplifa borgina enn frekar en af mörgu er að taka, t.d. heimsókn í Ho Chi Minh grafhýsið og í Hoa Lo fangelsissafnið sem gefur góða innsýn inn í sögu Víetnam stríðsins.
Ferðadagur
Eftir morgunverð skrá farþegar sig út af hóteli, þar sem þeir verða sóttir með rútu og keyrðir út á flugvöll Hanoi. ATH. FLUG ER EKKI INNIFALIÐ Í VERÐI FERÐARINNAR.
Ofangreind dagskrá er birt með fyrirvara. Tíu þúsund fet áskilja sér rétt til að breyta dagskrá ef á þarf að halda með tilliti til veðurs og annarra aðstæðna, að sjálfsögðu með heill farþega í fyrirrúmi.
Flug:
Sigling:
Lest:
Akstur:
Gististaðir:
Fæði:
Skoðunarferðir
Fararstjórn
Í nafni náttúrunnar
EKKI INNIFALIÐ
Athugið að listinn er ekki tæmandi og aðeins til viðmiðunar.