Eigandi, stjórnun og ferðaskipulag
Hvað er mikilvægast fyrir farþega að vita um þig? Það er að sjálfsögðu að vita hverra manna ég er. Það er líka algengasta og skemmtilegasta spurningin í öllum ferðalögum, þar sem hún tengir fólk oft og iðulega saman. En svo ég svari spurningunni þá var Matthías Jochumsson langalangafi minn, finnst ekkert leiðinlegt að segja frá því!
Hver eru eftirminnilegustu ferðalögin þín? Mér finnst erfitt að gera upp á milli margra ferðalaga en þeir staðir sem standa uppúr eru án efa, Machu Picchu í Perú, saltslétturnar í Bólivíu, Amazon í Brasilíu, Iguazu-fossarnir í Argentínu, pýramídarnir í Egyptalandi, Denali-þjóðgarðurinn í Alaska, The Narrows gönguleiðin í Utah, ganga í Miklagljúfri í Arizona, ferð um sveitir Kúbu á gömlum Chevrolet blæjubíl, Bob Marley safnið á Jamaíka, Taj Mahal í Indlandi og apaheimsókn á Gíbraltar. Ég veit að ég er að gleyma einhverju!
Hver eru skemmtilegustu ferðalögin? Göngu- og skíðaferðir með fjölskyldunni eða með góðum vinum. Ferðir í náttúrunni eru einfaldlega bestar!
Hver er erfiðasta upplifun þín á ferðalagi? Að horfa upp á fátækt í löndum eins og Brasilíu, Dóminíska lýðveldinu, Indlandi og Egyptalandi. Eins tók heimsókn í Alcatraz fangelsið í San Francisco og fangabúðirnar í Auschwitz og Birkenau verulega á. Ég þarf líka alltaf að hafa mig alla við þegar ég fer í hellaheimsóknir. Einu sinni fylgdu fætur ekki huga og þá lét ég nægja að horfa á eftir fjölskyldunni fara niður um 8 hæðir ofan í þorp grafið niður í jörðu í Tyrklandi..
Hefur þú fundið fyrir kvíða á ferðalagi? Já, þegar við fjölskyldan ákváðum að fara með Cessna-vél á bjarnarslóðir í Alaska. Flugum í mikilli ókyrrð sem endaði með því að flugstjórinn treysti sér ekki til að lenda vélinni. Ég þarf því að fara aftur einhvern tímann seinna og er strax komin með kvíðahnút yfir því, þ.e. flugferðinni! Einnig viðurkenni ég að hafa verið með smá kvíðahnút í skógargöngu með fjölskyldunni í Alaska, þar sem við vorum með bjarnarsprey að vopni! Ég var ósköp fegin að mæta ekki birni í þeirri ferð.
Hvaða ferðamáti finnst þér skemmtilegastur í útlöndum? Fætur í Perú, húsbíll í Alaska, vespur á Ítalíu, hjól á saltsléttum Bólivíu, kanó í Brasilíu og kajak í Púertó Ríkó.
Hefur þú fundið fyrir hræðslu á ferðalagi? Já, í borginni Salvador í Brasilíu, þar sem strætóbílstjóri bjargaði hugsanlega lífi mínu og Trausta, en við vorum stödd á hættulegum slóðum án þess að átta okkur á því. Strætisvagnabílstjóri stöðvaði með öðrum orðum vagninn við gangstétt þar sem við vorum á rölti um fáfarna götu og skipaði okkur að fara upp í vagninn og hleypti okkur ekki út fyrr en hann taldi svæðið óhætt ferðamönnum.
Hver rosalegasta borg sem þú hefur heimsótt? Las Vegas!